Monday, October 17, 2011

Kayaksigling við Reykjavík

Fór í skemmtilega 10 km kajaksiglingu í gærmorgun í frábæru haustveðri. Lagt af stað frá Geldinganesi og í kringum Viðey þar sem siglt var upp að Austurey, meðfram Heimaey, framhjá eiðinu, norður fyrir Austurey og til baka.

Það var mikið um Skarf á leiðinni og gaman að sjá þá þurrka sig eftir köfunarferðir eða það sem heitir víst að "messa" . Á vef Fuglaverndar segir m.a. um skarfinn:

"Hérlendis verpa tvær tegundir skarfa, toppskarfur og dílaskarfur. Skarfar eru skyldir súlum og pelíkönum. Skarfar eru dökkir, grannir og langir sjófuglar sem eru mjög sérhæfðir að köfun og eru í laginu eins og brúsar (lómur og himbrimi) og fiskiendur. Toppskarfur er nokkru minni og grennri en dílaskarfur.

Eftir köfun þarf toppskarfur að þurrka vængina og situr þá oft og blakar þeim, „messar“. Hann er fremur klaufalegur þegar hann hefur sig á loft. Toppskarfurinn heldur sig við strendur og sést nær aldrei inn til landsins eins og dílaskarfur sem sést oft á vötnum og ám fjarri sjó. Verpur í byggðum og er algengastur á lágum eyjum eða hólmum í Breiðafirði og Faxaflóa."

Hressandi sunnudagssigling og langt síðan síðast. Klárlega styttra í næstu siglingu!