Thursday, October 13, 2011

Boomerang rök Seðlabankastjóra

Það er merkilegt afneitunarviðtal við Má Guðmundsson í Viðskiptablaðinu í dag. Á einum stað vill blaðamaðurinn heiðarleg svör um ábyrgð peningastefnunnar á hruni krónunnar. Ekki vill yfirhönnuður peningastefnunnar s.l. 15 ár kannast við ábyrgð og svarar:

"Í grundvallaratriðum var peningastefnan hvað varðar markmið og vaxtaákvarðanir ekki öðruvísi en í mörgum löndum þar sem bankakerfi hrundi ekki. Ég hef oft nefnt Nýja Sjáland og Síle í því sambandi. "

Málsvörnin er því á þá leið að þeir gerðu bara eins og hinir og hjá hinum varð ekkert hrun. Ha?

Réttilega nefnir Már að Nýja Sjáland fylgdi áþekkri peningastefnu. Vaxtamunurinn var að vísu mun minni á Nýja Sjálandi en hér. En það varð gjaldmiðilshrun. Frá febrúar til desember 2008 hrundi nýsjálenski dollarinn um 23% gagnvart evru og 40% gagnvart japönsku jeni.
Vaxtamunaviðskipti og gjaldmiðilshrun er því sameiginlegt með Nýja Sjálandi og Íslandi. Bankahrunið skilur að, sem er enn ein vísbending þess að krónan hefði hrunið þó svo bankarnir hefðu ekki farið í þrot.


Íslenska krónan hrundi vegna vaxtamunaviðskiptanna alveg eins og nýsjálenski dollarinn enda áþekk peningastefnan, eins og Már bendir á.