Monday, February 7, 2011

Útsöluáhrif Icesave

Ég hef keypt hluti sem ég vissi að ég hafði alls engin not fyrir. En í samanburði við „upphaflegt“ verð þá taldi ég mig „græða“. Ég græddi ekkert í raun og vera heldur tapaði. Þetta eru útsöluáhrif. Margir láta blekkjast. Þetta er þekkt trikk.

Það er jú miklu auðveldara að velja hvort maður á að kaupa vöru á háu eða lágu verði en að velta því fyrir sér hvort maður hafi einhver not fyrir vöruna. Við þekkjum verslanir sem eru með útsölur allt árið! Sama trikk og ESB notar. Ef einhver þjóð hafnar einhverju frá ESB þá er bara komið aftur með örlítið betri samning. Valið einfaldað og útsöluáhrifin skila ESB sínu. Svínvirkar! Á engilsaxnesku kallast þetta „framing“ og er tekið sem dæmi um óskynsama en mannlega hegðu í atferlishagfræði. Svona erum við vitlaus. Við höldum okkur skynsöm.


Svo fylgir það líka fólki að verða þreytt og leitt. Alþingi er þreytt. Þjóðin er þreytt. Stjórnin er uppgefin. Það leiðist öllum Icesave. Svo er Icesave flókið en þjóðin hafnaði ríkisvæðingu einkaskulda 6. mars s.l. með 93% greiddra atkvæða. En líkt og útsölur einfalda valið þá er nú búið að auðvelda Icesave valið. Nýr samningur. Nú velja menn á milli hárra vaxta fyrri samnings eða lægri vaxta nýs samnings. Fyrirsögn Fréttablaðsins sagði að nýi samningurinn væri hagstæðari! Kunnuglegt trikk? Við horfum á Icesave undir útsöluáhrifum!

En fyrir utan þá staðreynd að allt að 300.000.000.000 telst ekki vera útsöluverð fyrir eitthvað sem við hvorki getum né eigum að greiða þá er Icesave ekki reikningsdæmi. Icesave er ekki útsöluvara þó svo að vextir hafi lækkað.

Valið um Icesave er spurning um rétt eða rangt. Margir helstu hagfræðingar heims lofa nú Íslendinga í hástert fyrir að hafa ekki ríkisvætt einkaskuldir. Þetta er rætt á sjónvarpsstöðvum heimsins. Hvernig Írar klúðruðu sínu fjárhagslega fullveldi með ríkisvæðingu einkaskulda en ekki Íslendingar. Þetta er eitthvað til að vera stoltur af sem Íslendingur. En heima á Íslandi eru menn ... bara ósköp mannlegir. Falla fyrir útsöluáhrifum og eru bæði þreyttir og leiðir.

Hins vegar, með samþykkt þá losnar þjóðin ekki við Icesave. Samningurinn gerir ráð fyrir að það megi rukka Íslendinga til ársins 2046. Það eru 35 ár. Spáin um Ísland sem sumarbústaðaland mun rætast. Áhættan er alfarið Íslendinga líkt og í fyrri samningi. Klyfjarnar hafa undanfarna mánuði sveiflast um 120 milljarða bara vegna gengisbreytinga!

Indefence styður ekki fyrirliggjandi samning. Jú vextir eru lægri en Indefence leggur ekki til að samningurinn verði samþykktur óbreyttur. Á það er ekki hlustað og Fréttablaðið matreiðir álitið í takt við sinn áróður. Ritstjóri Fréttablaðsins hefur jú barist fyrir því að Íslendingar greiði Icesave – allar útgáfurnar! Nú ákvað Sjálfstæðisflokkurinn óvænt að fara gegn ályktun eigin Landsfundar – maður spyr sig – hvers vegna?

Kannski erum við bara mannleg. Við erum þreytt, leið og förum á útsölur. Nú vilja menn lyfta sér upp. Sumir vilja fara á ímyndaða útsölu og gefa börnunum okkur gjöf. Gjöfin að greiða fyrir sukk og svínarí einkabanka. Við ætlum ekkert að láta reyna á rétt okkar. Það er samið sig frá gildandi lögum. Við nennum þessu ekki. Útsalan er í gangi.

Samþykkjum og látum svo börnin bara sjá um þetta?

Nei takk!