Tuesday, February 8, 2011

Hálfur sannleikur er oft versta lygin

Egill Helgason ræddi í gær umfjöllun Morgunblaðsins um kostnað vegna Icesave. Þar er m.a. vitnað til einnar sviðsmyndar GAM Management sem gerir ráð fyrir 233 milljarða kostnaði.
Egill skrifar:

“… Mogginn slær því upp á forsíðu að ef gengi krónunnar falli um 50 prósent verði greiðslurnar af Icesave mjög erfiðar … Auðvitað má benda það á móti að ef gengið færi að falla um 50 prósent – og héldist þannig í einhvern tíma – að þá væri botninn í raun dottinn úr íslenska hagkerfinu. Lífskjararrýrnunin yrði óskapleg – og er ekki á það bætandi. Evran færi þá í 250 krónur ...”

Þetta þykir mér afar villandi. Egill vitnar til forsíðu Moggans um að krónan falli um 50% en tilgreinir ekki á hversu löngum tíma sem er þó tilgreint inni í blaðinu! Í ágætri fréttaskýringu Morgunblaðsins kemur fram að þessi sviðsmynd gerir ráð fyrir 2% veikingu á ársfjórðungi! Við erum EKKI að tala um 50% gengisfall á einum degi, mánuði eða ári - heldur 2% gengisfall á ársfjórðungi eins og hægt er að lesa í greinargerð Morgunblaðsins. Þetta er ekkert aukaatriði.

Ég hef enga trú á 50% gengisfalli á næstunni þó svo að mér þyki 2% gengislækkun á ársfjórðuni næstu misseri ekki fráleitt sviðsmynd! Þetta er tvennt ólíkt.

Ef Egill hefur áhuga á að tala fyrir einni ákveðinni skoðun - þá það. En er það sanngjarnt að byggja ályktun á 50% gengisfalli þegar í raun er verið að tala um 2% gengislækkun á ársfjórðungi á næstu misserum?

Það eru margir sem treysta Agli Helgasyni og margt ágætt sem hann hefur staðið fyrir. Hins vegar er hann ekki yfir gagnrýni hafinn frekar en aðrir. Aðalatriðið er að hálfur sannleikur getur leitt menn út í móa. Það hlýtur að vera markmið Egils og annarra fjölmiðlamanna að stuðla að vitrænni umræðu.

Fyrir rétti í Bandaríkjunum dugar ekki að segja sannleikann. Þar sverja menn þess eið að segja líka allan sannleikann.

Hálfur sannleikur er jú ekki bara villandi heldur yfirleitt versta lygin.