Monday, February 7, 2011

Icesave: Dýr er Búðarhálsvirkjun öll!

Það er gefið í skyn á forsíðu Fréttablaðsins í dag að ávinningur af jákvæðu viðhorfi hins pólitíska Evrópubanka til Icesave réttlæti m.a. samning. Slík „jákvæðni“ liðki fyrir láni til Búðarhálsvirkjunar og undir það tekur Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar. Er það svo í raun eða erum við enn einu sinni að sjá pólitískan áróður úr þessari áttinni?
Heildarfjárfesting vegna Búðarhálsvirkjunar er áætluð 26 milljarðar. Á opnum fundi í Háskólanum s.l. föstudag þar sem sami söngur var sunginn þá spurði ég forstjóra Landsvirkjunar hver væri núvirt arðsemi virkjunarinnar. Hann sagðist ekki muna það. Þá skulum við bara áætla hana.

Upphaflegt mat á arðsemi Kárahnjúkavirkjunar var 5,5%. Að vísu þótti sú tala ekki nægjanlega seljanleg í pólitík þess tíma. Því var ákveðið að tala um arðsemi eigin fjár. Þannig var hægt að veifa hærri tölu enda hægt að fá hærri tölur eftir því sem eigið fé í verkefni er stillt lægra. Svínvirkaði í áróðrinum en breytir hins vegar engu um arðsemi verkefnisins í heild. En þá þurfti að gefa sér m.a. forsendur um vexti vegna fjármögnunar þess sem uppá vantaði. Allir vita í dag að þær forsendur eru sprungnar. Allt mjög "vísindalega" reiknað. Kalt hagsmunamat! Stjórnmálamenn stimpluðu þetta sem "rétta ákvörðun" og "arðsama fjárfestingu". Geir var forsætisráðherra og Friðrik forstjóri Landsvirkjunar. Landinu, sem var metið á 0 kr. í arðsemimatinu, var sökkt undir virkjun. Það var ekki aftur snúið. Alþingi réð og þjóðin ekki spurð.

Ef við gefum okkur að Hörður sé 100% snjallari með Búðarhálsvirkjun en áætlanir um Kárahnjúkavirkjun sögðu, þá erum við samt bara að tala um 2,86 milljarða arðsemi Búðarhálsvirkjunar!

Blað ritstjóra, sem hefur líkt og Hörður talað ötullega fyrir öllum útgáfum Icesave, notar nú Búðarhálsvirkjun sem rök og stillir upp sem forsíðufrétt og Hörður heldur fyrirlestra um málið!

Bara ef löglausar kröfur er samþykktar og einkaskuldir færðar yfir á skattgreiðendur, þá birtir yfir Íslandi! Merkilegt! Hjómar vel? Að skapa störf og ég veit ekki hvað. Icesave klyfjar hafa verið metnar út frá mismunandi sviðsmyndum. Ég styðst við útreikninga frá GAM Management frá janúar 2011. Sviðsmynd um nokkuð óbreytt ástand gerir ráð fyrir 67 milljörðum. Aðrir myndir eru hærri og ekki fráleit sviðsmynd (4) gerir ráð fyrir 233 milljarða kostnaði samkvæmt GAM.

Eins og myndin ber með sér þá er forsíðufréttin og boðskapur fyrirlestranna ekki boðlegur . „Ávinningurinn“ vs. Icesave kostnaðurinn er harla rýr. Þar að auki er hinn pólitíski Evrópubanki og NIB ekki einu bankar heimsins. Peningar leita í arðbær verkefni.

Afi þurfti að hafa fyrir lífinu. Hann fékk 3ja mánaða skólagöngu. En hann var klár karl. Hann hefði ekki verið í vanda með að skilja að það er betra að lána þeim sem kemur sér ekki í óviðráðanlegar skuldir. Blessuð sé minning hans.

Ég sakna afa.