Thursday, October 21, 2010

Fordæmalausar aðstæður?

Hvað er átt við þegar staðhæft er að hér séu fordæmalausar aðstæður?

Ekki getur það verið fall gjaldmiðilsins. Gjaldmiðlar hrynja títt og sveiflur geta verið miklar. Verð japanska jensins gagnvart bandaríkjadollar þrefaldaðist t.a.m. frá 1985 til 1995 og gjaldmiðlar hrundu í Asíukreppunni svo dæmi séu tekin. Ekki getur það verið verðbólga og nægir að benda á óðaverðbólgu víða um heim. Ekki getur það verið hátt atvinnuleysi því víðast í ESB er það meira. Ekki getur það verið 15% nafnverðslækkun húsnæðis á Íslandi þegar lækkunin á Írlandi er 50%. Hvað er átt við?


Er það hávaðasamasta málið - forsendur fyrir almennri niðurfellingu húsnæðislána? Ef litið er til síðustu 10 ára þá hefur húsnæðisverð hækkað um 108% en verðlag um 82%.

Já það eru sveiflur og stundum eru þær hagstæðar og stundum ekki sbr. mynd. Hins vegar hefur húsnæði hækkað umfram verðlag síðustu 10 árin um sem nemur 26% og mesta 12 mánaða breyting s.l. 10 ár er húsnæðiseigendum í hag sem nemur 37% í ágúst 2005 á móti mestri lækkun upp á 27% í apríl 2009!

Þetta eru staðreyndir. Vissulega eru aðstæður erfiðar og engin ástæða til að gera lítið úr vanda fjölda fólks sem þarf að aðstoða. En eru þetta fordæmalausar aðstæður eða upphrópun sem stenst ekki skoðun?