Friday, October 15, 2010

Evran og syndirnar sjö

Hvað hefur evru krísan 2010 með pólitísk hrossakaup fyrir 20 árum að gera?

Jú, fyrir 20 árum var fræjum evru-krísunnar 2010 sáð. Evru-krísan er ekki bara vegna skuldavandræða Grikkja, Ítala, Spánverja, Portúgala, Íra og fleiri eins og margir halda. Evru-krísan er bein afleiðing af vanhugsuðu regluverki ESB (hljómar kunnuglega!) í peningamálum. Pólitísk kapp var meira en efnahagsleg forsjá.


Fall Berlínarmúrsins og síðar sameining Þýskalands 1990 ýtti evrunni úr vör. Fyrir þann tíma var sameiginlegur gjaldmiðill álfunnar fyrst og fremst hugmynd. Forseti Frakklands Francois Mitterand sá fyrir sér sameinaða Evrópu. Sameiginlegur gjaldmiðill var mikilvægur þáttur í því. Það var andstaða í Þýskalandi en kanslari Þýskalands Helmut Kohl vildi stuðning Evrópusambandsins við sameinað Þýskaland - nokkuð sem mörgum í Evrópu stóð stuggur af. Mitterand áttaði sig á stöðunni og sá sér leik á borði. Mitterrand samdi við Kohl. Þjóðverjar samþykktu myntbandalagsáformin gegn stuðningi Evrópusambandsins við sameiningu Þýskalands. Tveir sterkir leiðtogar, sem höfðu takmarkaða þekkingu á hagfræði og enn minni áhuga á peningamálum, lögðu grunninn.

En hvað klikkaði?

Í fyrsta lagi var efnahags- og félagslega gjörólíkum svæðum smalað saman í eitt gjaldmiðlasvæði. Stærðin varð með óræðum hætti mælikvarði á ágæti evrunnar! Kappið var svo mikið að slakað var á skilyrðum (t.d. varðandi Belgíu, Ítalíu og Grikkland) sem ekki einatt uppfylltu ekki skilyrðin heldur fölsuðu sum reikningana. Það var horft í gegnum fingur sér vegna þess að stærðin átti að sanna tilverugrundvöll evrunnar!

Í öðru lagi voru lánakjör allra í Evrulandi svipuð þó svo að efnahagslegur styrkleiki væri gjörólíkur. Evrópski seðlabankinn gerði ekki upp á milli ríkjanna í lánaviðskiptum. Lán og lánakjör endurspegluðu því ekki efnahagslega getu ríkjanna og samhengið á milli ábyrgrar efnahagsstjórnar, skuldastöðu og lánskjara var rofið. Evran ýtti þannig undir aðhaldsleysi og óstjórn. Aðhaldsleysið vegna evrunnar er í dag flestum ljóst og kemur nú í bakið á ríkjum Evrulands.

Í þriðja lagi þýddi fjölgun ríkja í Evrulandi fleiri ólík sjónarmið í peningastjórnun. Úr varð miðjumoð sem gagnaðist engum. Í fjórða lagi þá hefur áhugi Þjóðverja á myntsamstarfinu minnkað til muna og var hann ekki mikill fyrir. Þýsk stjórnvöld komu þeim skilaboðum á framfæri í upphafi bankakreppunnar 2008 að hvert ríki þyrfti að sjá um sína banka. Það var meðvituð ákvörðun þýskra stjórnvalda að bankakrísan væri ekki samevrópskt vandamál. Ég finn til með Írum!

Í fimmta lagi þá var Mastrict samkomulagið svikið. Bann við björgun eins ríkis á kostnað annars (e. no-bailout clause) kom ekki í veg fyrir að Grikklandi var bjargað á kostnað hinna. Evruríkin voru neydd til að taka þátt í 500 milljarða evru björgunarsjóði þrátt fyrir „no-bailout“ ákvæðið. Evrópski seðlabankinn var látinn kaupa skuldabréf sem höfðu súrnað.

Í sjötta lagi afhjúpaði krísan arfaslaka stjórnunarlega, pólitíska og fjármálalega umgjörð evrunnar. Í viðtali mínu við Robert Mundell þá lagði hann til að Ísland tengdi krónuna við dollar. Sjálfur Mundell, yfirlýstur stuðningsmaður evrunnar og oft nefndur faðir hennar, treystir ekki umgjörðinni. Hann benti t.a.m. á þá staðreynd að ekki er fjármálamiðstöð í Evrulandi. Hún er í London. London er ekki í Evrulandi. Þá hefur Evruland ekki yfirþjóðlegan fjármála-, viðskipta eða bankamálaráðherra til að samhæfa viðbrögð í efnahagsmálum.

Í sjöunda lagi þá er Evruland samsett af svo ólíkum ríkjum félags-, menningar- og tungumálalega að það kemur niður á hreyfanleika vinnuafls. Svæðið er óhagkvæmt gjaldmiðlasvæði. Það kemur niður á samkeppnishæfni. Alvarleg afleiðing þess er meira atvinnuleysi.

Evran og syndirnar sjö eru samhent og samheldin fjölskylda. Vill Ísland verða hluti af þessari fjölskyldu?

Við höfum val. Útfærum valkostina, veljum og höldum svo áfram!