Thursday, September 30, 2010

Valkostir í gjaldmiðilsmálum og trúin eina

Ísland er stefnulaust um eigin gjaldmiðil. Stjórnarflokkarnir eru ósammála um framtíðarfyrirkomulag í þessu stóra máli og þá virðist lausnin vera að gera ekki neitt. Nýlega átti ég þess kost að ræða þessi mál við tvo hagfræðinga, þá Joseph Stiglitz og Robert Mundell. Helstu valkostir í gjaldmiðlamálum Íslendinga eru nokkrir með sína kosti og galla og m.a. þessir:

a) Íslensk króna og ný peningastefna
b) Íslensk króna tengd við erlenda mynt
c) Innganga í ESB og upptaka evru

Nóbelsverðlaunahafinn Joseph Stiglitz hefur áður lýst skoðun sinni í fyrirlestrum á Íslandi og skrifað skýrslu um málið. Í samtali mínum við Stiglitz var hann jafnákveðinn og áður að eina skynsamlega leiðin fyrir Ísland er að halda krónunni. Rök hans eru klassísk og hann leggur til leiðir til að minnka sveiflur. Stiglitz trúir á leið a) fyrir Ísland.

Nóbelsverðlaunahafinn Robert Mundell, stundum nefndur faðir evrunnar, kom fyrst fram sem brautryðjandi í peningamálahagfræði upp úr 1960 og hlaut Nóbelsverðlaunin 1999. Hann er m.a. höfundur kenningarinnar um hagkvæm gjaldmiðlasvæði og Mundell-Fleming líkanið er klassík í hagfræði. Í samtali mínu við Mundell kom glöggt fram hvað hann telur best fyrir Ísland. Mundell trúir á leið b) fyrir Ísland.

Jóhanna Sigurðurdóttir og Samfylkingin vilja ganga í ESB og taka upp evru. Í ályktun hennar flokks segir: „Umsókn um aðild að ESB og undirbúningur að upptöku Evru mun styrkja efnahag heimilanna og fyrirtækja í landinu“. Jóhanna trúir á leið c) fyrir Ísland.

Ef markmiðið er að velja besta valkostinn þá verða menn að þekkja og skilja valkostina. Ofurtrú á einn valkost áður en skilningur liggur fyrir um hina er í anda trúarbragða þar sem rökin snúast þá um réttlætingu þess að trúa en ekki að finna bestu lausnina. Kosturinn við að trúa er hins vegar að þá þarf ekki að útskýra „af hverju“ eða yfirhöfuð að eyða orku í að hugsa.

Hver er að skoða valkostina í gjaldmiðilsmálum fyrir stjórnvöld? Eru þeir kannski trúaðir og valdir af því að þeir eru sömu trúar og æðsti yfirmaður peningamála á Íslandi og yfirmaður seðlabankans – Jóhanna Sigurðardóttir? Væri kannski ráð að hlusta meira á Nóbelsverðlaunahafana?

Ég trúi því.