Wednesday, September 29, 2010

Sem betur fer var Kóperníkus ekki yfirhagfræðingur

Á miðöldum var heimslíkan kirkjunnar að jörðin væri í miðju alheimsins. Líkanið passaði að vísu ekki við raunveruleikann. Hugmyndin um að jörðin snúist um sólina þótti kirkju þess tíma andguðleg. Ptólemíos tjaslaði því upp á vitlausa líkanið og bjó til auka hringi um reikistjörnurnar. Líkanið skánaði en var engu að síður vitlaust. Kirkjan blessaði niðurstöðuna.

Á 15. öld sýndi Kóperníkus fram á að jörðin snýst í kringum sólina en ekki öfugt. Þetta olli byltingu. Mótstaða kirkjunnar hélt samt áfram. Galíleó var dæmdur af rannsóknarréttinum fyrir villutrú og gert að afneita kenningum Kóperníkusar. Kirkjan hélt sig við sína fyrri heimsmynd og í krafti veldis sín útbreiddi hún “sannleikann”.

Af hverju er ég að rifja þetta upp? Jú, ég var að lesa rannsóknarskýrsluna og þátt Seðlabankans í hruninu. Seðlabankinn byggir stefnu sína m.a. á líkani sem lýsir áhrifum peningastefnu á hagkerfið. Í skýrslunni eru viðbrögð hagkerfisins við peningastefnunni rakin. Raunveruleikinn stemmir ekki við líkanið. Hvort er þá vitlaust – raunveruleikinn eða líkanið!Hærri stýrivextir stuðluðu að aukinni útgáfu jöklabréfa. Aukin útgáfa jöklabréfa bjó til ofurkrónu og aukinn kaupmátt. Innflutningsverð lækkaði og peningastefnan hvatti til aukinnar lántöku í erlendri mynt. Erlend lán lækkuðu í krónum talið eftir því sem krónan styrktist. Raunveruleikinn var því falskur kaupmáttur, fölsk eiginfjárstaða og óhófleg skuldsetning í erlendri mynt. Ýtt var undir þenslu en ekki öfugt eins og líkanið sagði. Við fall bankanna orsakaði útstreymi jöklabréfa hrun krónunnar. Peningastefna undirbyggði þannig hrunið og afleiðingin eru fjöldagjaldþrot og gjaldeyrishöft.

Í skýrslunni kvarta núverandi yfirmenn Seðlabankans undan þáverandi yfirmanni. Sá stoppaði þá af í að hækka hér vexti enn meira. Sem betur fer. Þannig var komið í veg fyrir enn meiri skaða. Eftir hrunið voru þeir hins vegar hækkaðir í tign og launum og guðfaðir líkansins ráðinn sem æðsti prestur. Það kallaði Jón Baldvin réttilega öfugmæli.

Yfirmódelsmiðirnir og guðfaðir peningastefnunnar eru nú yfirmenn Seðlabankans. Þeir endurskrifa þessa dagana söguna undir formerkjum Seðlabankans - ástæðu hrunsins og útbreiða “sannleikann”. Rannsóknarskýrslan staðfestir því að núverandi yfirmenn láta raunveruleikann ekki þvælast fyrir vitlausum líkönum og þeim ferst illa að vera dómarar í eigin sök. Samfylkingin blessar vinnubrögðin. Íslenskur almenningur blæðir.

Ég segi bara: … sem betur fer var Kóperníkus ekki yfirhagfræðingur í Seðlabankanum. Og ég hallast að því að Samfylkingin sé kirkjukór sértrúarsöfnuðar?