Friday, August 13, 2010

Ísland sem fríríki WikiLeaks eða viðvaninga?

Það á ekki að líða að Ísland sé glæpaskjól óvina Nató segir Washington Post. Það á að tortíma Wikileaks segir Harpers. Blaðamenn án landamæra gagnrýna WikiLeaks harðlega fyrir kæruleysi. Ísland og WikiLeaks eru spyrt saman í eitt.

Forsprakki WikiLeaks, Julian Assange, spásserar títt í Reykjavík og gaukar visku að íslenskum þingmönnum. Út kemur IMMI sem á að tryggja Ísland sem nokkurs konar fríríki uppljóstrara. Ísland sem Sviss uppljóstrana segir Economist. Al Jazzera stöðin er sátt og fullyrt er að Ísland sé andlegt heimili WikiLeaks.

WikiLeaks fletti ofan af blekkingu stjórnvalda, vanhæfi flokksgæðings og spillingu á Íslandi. Þannig var stuðlað að opnara samfélagi og auknu lýðræði. Er leyndarhyggja ekki mein og allt upp á borð?

Í leyniskjölum Bandaríkjahers, sem WikiLeaks birti, koma fram nöfn samstarfsaðila hersins í Afganistan. Talibanar liggja nú yfir þessum gögnum til að finna svikarana og refsa þeim. Eru mannslíf í hættu? Ógnar þetta þjóðaröryggi Bandaríkjanna? Mannúðarsamtök, m.a. Amnesty International, gagnrýna vinnubrögð WikiLeaks.

WikiLeak-arar vilja vitnavernd að sænskri fyrirmynd sem tryggir leynd á heimildarmönnum blaðamanna. WikiLeak-arar vilja þannig ekki allt upp á borðið. Það vilja dómsstólar, her og lögregla ekki heldur. Hvað með þjóðaröryggi á stríðstímum? Hvað ef hálfum sannleikanum er lekið meðvitað? Hálfur sannleikur eru jú oftast helber lygi. Hvað með meiðyrði? Þannig að það má ekki birta allt og einhverjar reglur þurfa að gilda? Hver á þá að ákveða leikreglurnar, tryggja eftirlitið og framfylgja? WikiLeaks á Íslandi?

Er her- og saklausa litla Ísland trúverðugt og í stakk búið að leiða málið? Á að endurnýta íslensku lögspekingana sem klúðruðu myntkörfu-lánunum? Er treystandi á íslenska eftirlits- og embættismannakerfið í ljósi reynslunnar? Hefur íslenskur þingheimur tíma og burði til að rýna málið af einhverju gagni?

Birgitta Jónsdóttir hefur að vísu bent á að ekki sé verið að finna upp lögin. Bestu lagabútar héðan og þaðan eru einfaldlega settir saman í eina heilsteypta löggjöf. En erum við nokkuð búin að gleyma innleiðingu 94/19/EC? Her sérfræðinga ESB útfærði Evróputilskipun 94/19 sem Ísland síðan innleiddi. Úr varð Icesave!

Fríríki uppljóstrara er metnaðarfullt verkefni, stórbrotið, heillandi og vissulega þarft. Ég spyr mig hins vegar hvort Ísland hafi það sem til þarf? Er það kannski táknrænt að svefndrukkið Alþingi Íslendinga afgreiddi þingsályktun um málið í skjóli nætur (3:35 fyrir hádegi) þann 16. júní s.l.?

Kannski erum við bara svona hrifnæm og án jarðtengingar. Klórum yfirborðið hér og þar og vonum það besta. Hunsum nauðsynlegar forsendur framtíðadraumanna. Einu sinni var það Ísland sem fjármálamiðstöð. Vonandi höfum við lært eitthvað. Ef ekki þá gæti Ísland sem fríríki uppljóstrara orðið að fríríki viðvaningsháttar - aftur. Gerum þetta vel ... eða ... sleppum því.