Wednesday, March 17, 2010

Lýðræðið afgreiðir gríska harmleikinn en ekki þann íslenska

Það er í tísku í Evrópu að kenna afleiðusamningi frá Wallstreet um vandræði Grikkja. Skortsölu spákaupmanna var kennt um hrun íslensku krónunnar. Í báðum tilvikum er um smjörklípur að ræða. Smjörklípurnar beina athyglinni frá þeim sem raunverulega bera ábyrgð. Afleiðusamningurinn gríski samsvaraði 0,1% af landsframleiðslu þannig að ekki felldi hann Grikkland.

Skortsala felldi ekki íslensku krónuna heldur hávaxtastefna seðlabanka Íslands.

Með evruna að vopni hafa grísk stjórnvöld í um áratug laðað að erlendra lánadrottna til að viðhalda ósjálfbæru ríkis- og velferðarkerfi. Hömlulaus efnahagsstjórn leyfði æ meiri skuldir þar til þær voru ekki lengur sjálfbærar og því fer sem fer. Ábyrgð á hruninu í Grikklandi liggur í stjórn efnahagsmála. Grískir kjósendur geta losað sig við skaðvaldana.

Með hávaxtastefnu að vopni laðaði íslenski seðlabankinn til landsins kvikt fjármagn til að viðhalda fölskum kaupmætti krónunnar. Hömlulaus hávaxtastefna tryggði sívaxandi innflæði þar til sama fjármagn vildi út og því fór sem fór.

Ábyrgðin á hruni íslensku krónunnar og núverandi gjaldeyrishöftum liggur hjá núverandi yfirmönnum Seðlabanka Íslands. Íslenskir kjósendur geta EKKI losað sig við þessa skaðvalda.

Harmleikurinn er því óafgreiddur á Íslandi en í Grikklandi afgreiðir lýðræðið harmleikinn. Stundum þarf byltingu til að tryggja lýðræði.