Friday, February 19, 2010

Hvaða kostir eru í stöðunni fyrir Breta?

Leikjafræðilega ættu Bretar líklega að hafna nýjum Icesave tillögum. Gildir einu hversu “sanngjarnar” tillögurnar eru. Það er vegna þess að ekki er augljóst að slíkt leiði til verri niðurstöðu fyrir Breta. Aðeins ef Bretar eru sannfærðir um að Icesave verði hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu er von að viðræður skili árangri. Hið sorglega er hins vegar að hagur Breta fer saman við hag stjórnarflokkanna sem vilja bjarga eigin andlitum.

Með því að taka sér tíma í að tala við Íslendinga og hafna síðan nýju samkomulagi þá senda þeir skilaboð. Skilaboðin eru, “við gaumgæfðum ykkar tillögu en getum ekki samþykkt”. Við slíka höfnun munu margir á Íslandi missa móðinn. Þá geta Bretar einnig treyst á að íslensk stjórnvöld vinni áfram að breskum hagsmunum í þessu máli. Íslensk stjórnvöld munu nota tækifærið og reyna allt til að breyta almenningsálitinu á Íslandi Bretum í hag enda fara hagsmunir saman. Íslensk stjórnvöld ná að halda andlitinu og geta á sama tíma kennt stjórnarandstöðunni um. Jóhanna og Steingrímur geta sagt að leið stjórnarandstöðunnar sé fullreynd en að hún sé ekki raunsæ. Nú sé nóg komið.

Ef Bretar hafna nýjum samningi þá er komið að þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem lögum Alþingis er hafnað (nei) eða þau samþykkt (já). Ef niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar verður “já” þá eru Bretar strax betur settir. Ef niðurstaðan verður “nei” þá eru Bretar í verri stöðu. Spurning þeirra er því hvort það sé áhættunar virði. Þess vegna geta Bretar leikjafræðilega metið það svo að best sé að hafna nýjum samningi og sjá svo til hvernig þjóðaratkvæðagreiðslan fer.

Ógæfa Íslands er því, nú sem áður, núverandi stjórnvöld og Indriðar þessa lands. Það er því mikilvægt að vera raunsær varðandi útkomu viðræðna við Breta. Fullkomlega eðlilegur millileikur Breta er að hafna nýjum Icesave samningi og bíða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Hafni Bretar hins vegar nú tillögum Íslendinga þá má þjóðin ekki láta blekkjast.

Sjáum hvað setur. En segjum ávalt nei við Icesave.