Thursday, November 5, 2009

Seðlabankinn dæmir í eigin sök

“Seðlabankinn lítur til ESB og segir núverandi peningamálastefnu ekki ganga til lengdar” er fréttafyrirsögn á pressan.is.

Á ég að hlæja eða að gráta?!

Ein helsta ástæða hrunsins er að eftirlitið brást. Bankarnir fengu að vaxa óhindrað og þegar þeir féllu þá felldu þeir einnig krónuna. Við hrun krónunnar hækkuðu gjaldeyris- og verðtryggð lán þannig að stór hluti heimila og fyrirtækja urðu gjaldþrota. Krónan hrundi vegna þess að gjaldeyrir sem flæddi inn í landið vegna hávaxtastefnu Seðlabankans vildi allur út á sama tíma þegar bankarnir féllu.


Glórulaus hávaxtastefna Seðlabankans er þannig helsta undirliggjandi ástæða fyrir hruni krónunnar og þar með ástæða þess að gjaldeyrishöft voru sett. Gjaldeyrishöftin færðu Ísland áratugi aftur í tímann. En þessi mistök Seðlabankans eru endurtekin mistök frá hruni krónunnar árið 2001. Í bæði skiptin stuðlaði hávaxtastefnan að vaxtamunarviðskiptum sem ullu síðan falli krónunnar þegar spákaupmenn urðu hræddir.

Hvernig taka stjórnvöld á þessum endurteknu mistökum? Jú með því að þeir sem mótuðu stefnuna og framkvæmdu 2001 og 2008 eru hækkaðir í tign! Már Guðmundsson aðalhagfræðingur Seðlabankans og helsti höfundur og “primus motor” í framkvæmd peningamálastefnunnar 2001 er gerður að seðlabankastjóra! Arnór Sighvatsson tók við sem aðalhagfræðingur á eftir Má og aðstoðarmaður hans var Þórarinn G. Pétursson. Arnóri og Þórarni var nýlega þakkað “gott starf” af núverandi stjórnvöldum og hækkaðir í tign?! Arnór varð aðstoðarseðlabankastjóri og Þórarinn er nú aðalhagfræðingur.

Þeir eru líklega vandfundnir sem bera meiri ábyrgð á hruni krónunnar 2001 og 2008. Það blasir því við að stjórnvöld horfa framhjá ábyrgð á hruni krónunnar. Hvernig má það vera? Það þjónar kannski þröngum pólitískum hagsmunum stjórnarflokkanna að hafa sína menn á réttum stöðum en þjónar það hagsmunum Íslands?

Skiptir trúverðugleiki Seðlabankans nú engu máli?

Það er langt síðan bæði Arnór og Þórarinn lýstu opinberlega yfir vantrú á krónuna – þeirrar sömu og gat ekki annað en hrunið vegna þeirrar stefnu sem þeir sjálfir framkvæmdu! Þessir snillingar sitja síðan allir saman í peningastefnunefnd og eiga að stuðla að endurreisn krónunnar og koma með tillögur vegna stöðunnar. Þeir víla ekki fyrir sér lýsa yfir hvað sé til ráða núna og þar með telja þeir sig geta greint það sem fór úrskeiðis í eigin stjórn peningamála!!

Kallast þetta ekki að vera dómari í eigin sök?!

Í hinu nýja ríkisvædda Íslandi gilda greinilega flokksskírteinin sem aldrei fyrr og vanhæfi verður þá aukaatriði.

Átti ekki að taka á pólitískri spillingu?