Thursday, November 5, 2009

Ofurtrú á ofurtrú

Eftir á að hyggja virðist ljóst að stjórnendur íslensku bankanna höfðu fullmikla ofurtrú á eigin getu. Líklega hafði meira og minna öll íslenska þjóðin ofurtrú á íslensku útrásinni sem sést vel af því að margir víluðu ekki fyrir sér að taka mikla fjárhagslega áhættu. Þegar maður fylgist með Íslandi úr fjarlægð þá sýnist manni að þjóðin sveiflist nú úr því að hafa ofurtrú á eigin getu yfir í þjóð með ofurtrú á eigið getuleysi.

Við sveiflumst öfganna á milli en eitt virðist ekki breytast. Við höldum okkar ofurtrú. Stjórnvöld hafa ofurtrú á eigin lausnum. Stjórnarandstaðan sömuleiðis. Við höfum ofurtrú á eigin dómgreind.

Ofurtrú á eigin dómgreind er að sjálfsögðu ekkert sér-íslenskt. Um þetta er m.a. fjallað í fyrirtaks grein í New York Times þar sem 94% háskólakennara telja sig yfir meðaltali! Um 90% ökumanna telja sig betri bílstjóra en meðalmaðurinn! Ofurtrú er okkur semsagt eðlislæg.
Í dag sýpur þjóðin seyðið af ofurtrú gærdagsins á eigin getu í umhverfi sem við réðum ekki við. Spurningin er hvaða seyði við erum að súpa í dag? Ofurtrú á eigið getuleysi mun ekki ekki hjálpa. Er kannski fyrsta skrefið við úrlausn mála að vantreysta hæfilega eigin ofurtrú og opna með því fyrir aðrar skoðanir og þannig sjá ný tækifæri?

Getur verið að afstaða Samfylkingarinnar í Icesave málinu sé enn ein tegund af skaðlegri ofurtrú. Getur verið að það að hunsa efnahagstillögur stjórnarandstöðunnar sé önnur tegund af ofurtrú sem skaði þjóðina. Er það þá ofurtrú á flokka og flokksaga á kostnað framfara og endurreisnar? Spyr sá sem ekki veit.