Monday, November 16, 2009

Haltur leiðir blindan

Kommisar Vladimir Špidla býður Íslandi nú ráðgjöf ESB til að takast á við atvinnuleysi. Mikilvægt - segir félagsmálaráðherra. Sérstakt - segi ég. Árangur ESB gegn atvinnuleysi hefur aldrei verið til fyrirmyndar. Lítið sem ekkert atvinnleysi hefur hins vegar verið til fyrirmyndar á Íslandi um langt skeið. Íslenskt efnahagslíf hefur sýnt sveigjanleika þegar áföll hafa dunið yfir og jafnan náð að aðlagast nýjum veruleika hratt. Meira segja í dag, ári eftir algert hrun bankakerfisins, þá er atvinnuleysi á Íslandi nú einungis 7,2% (september, Hagstofa Íslands) sem er mun lægra en meðaltal ESB (9,2%) og Evrulands (9,7%) svo ekki sé talað um jaðarríki ESB s.s. Írland (13%) og Spán (19,7%).

Eins og við var að búast fögnuðu Evrópusamtökin og ESB boðarinn Árni Páll „ráðgjöf“ ESB í atvinnumálum. Fyrirsögn fréttar Evrópusamtakanna í tilefni af komu Špidla er tilvitnun í kommisarinn „Evran tryggir stöðugleika“. Það að evran tryggi stöðugleika er vissulega kostur. Það er hins vegar bara hálf sagan. Sá kostur hefur alvarlegan ókost fyrir jaðarríki evrusvæðisins eins og fjöldi virtra hagfræðinga hefur bent á s.s. nóbelsverðlaunahafinn Joseph Stiglitz. Ókosturinn er að „stöðugleikinn“ kemur á kostnað sveigjanleika að bregðast við áföllum. Ef ekki er til staðar sveigjanleiki í gjaldmiðlinum að bregðast við áföllum þá kemur það fram í auknu atvinnuleysi.

Áföll hætta ekki þó svo að Ísland greiði árgjald til ESB og taki upp evru. Kostnaður „stöðugleika“ verður þá aukið og langvarandi atvinnuleysi.