Thursday, November 19, 2009

Framtíðin þarf heiðarleg svör vegna Icesave

Það þarf blekkingarvilja til að búa til spurningar og svör um Icesave, sem finna má á island.is undir yfirskininu - hlutlaus upplýsingaveita stjórnvalda.

Á vefnum er m.a. spurt hvort Icesave geti haft áhrif á lánshæfimat Íslands og þá hvernig? Svarið er efnislega að matsfyrirtækin hafa þegar gert ráð fyrir að skuldbindingin falli á ríkið - undirskrift breytir því engu!

Þetta er svona sambærilegt og að sjúklingur spyrji lækni hvort hann meti lífslíkur sínar minni ef hann reyki? Læknirinn segir svo alls ekki vera - enda geri hann ráð fyrir að sjúklingurinn reyki!
Í svarinu segir einnig að erfitt sé að spá fyrir um viðbrögð matsfyrirtækjanna vegna samþykktar á Icesave. Er það? Þetta er t.d. metið í rannsókn Gaillard sem sýnir að 3 breytur útskýra 80% lánshæfimats. Ein þeirra er hlutfallið skuldir/tekjur. Önnur rannsókn sýnir að sex breytur útskýra meira og minna lánshæfimat þjóða. Ein breytan er hlutfallið erlendar skuldir sem hlutfall af útflutningi. Hvað er svona erfitt að meta?
Auknar skuldir vegna Icesave lækka lánshæfimat fyrir Ísland. Lægra lánshæfimat þýðir verri lánakjör. Verri lánakjör skerða lífsgæði, kalla á hærri skatta, skerða kaupmátt, draga úr fjárfestingum, veikja krónuna og veikja samkeppnisstöðu Íslands.

Er það til of mikils mælst að stjórnvöld færi fram heiðarleg svör vegna Icesave? Eða samþykkir þjóðin að framtíðinni sé fórnað á grunni aulafyndni, rökleysu og valdafíknar?