Tuesday, November 10, 2009

Brjótum múra fortíðar

Á meðan 20 ára afmæli falls Berlínarmúrsins er fagnað rís aðskilnaðarmúrinn í Palestínu.

Aðskilnaðarmúrinn er ólöglegur samkvæmt Genfarsáttmálanum og brot á samþykktum Sameinuðu þjóðanna (SÞ). Alþjóðadómstóllinn í Haag úrskurðaði 2004 að múrinn skuli rifinn. En líkt og með sjálft hernámið þá fara Ísraelar sínu fram.

Stjórnvöld í Ísrael hafa verið fordæmd af SÞ í 65 skipti vegna brota á sáttmálum SÞ. Jimmy Carter, fyrrverandi Bandaríkjaforseti og friðarverðlaunahafi Nóbels, hefur ritað bók gegn stefnu Ísraels. Desmond Tutu biskup í S- Afríku hefur lýst Ísrael sem ríki kynþáttaaðskilnaðar og hvatt til alþjóðlegra refsiaðgerða. Ísraelsmenn halda samt sínu striki.

Íslendingum er málið vissulega skylt. Líkt og vitnað er um í ævisögu Abba Eban, fyrrverandi utanríkisráðherra Ísraels, þá átti Thor Thors sendiherra mikilvægan þátt í því að tryggja að Ísraelar fengju að stofna eigið ríki. Thor var árið 1947 framsögumaður nefndar sem skipuð var fulltrúum þriggja ríkja SÞ og átti nefndin að meta stöðuna í deilum Gyðinga og Araba og mæla með lausn. Íslendingar studdu málstað Gyðinga þótt Thor tæki einnig fram að ekki væri um endanlega lausn á deilunum að ræða.

Allt frá samþykkt SÞ hefur ríkt ófriður á þessu svæði.

Menn geta skálað og glaðst yfir falli Berlínarmúrsins fyrir 20 árum en aðskilnaðarmúrinn er enn í byggingu og það eru liðin 42 ár frá hernámi Ísraela, í sex daga stríðinu, sem á enn eftir að leiðrétta.

Spurningin er hvort við hin séum ekki föst inni í eigin múr sem hindrar réttláta sýn. Það er múr sektarkenndar og doða sem má rekja til illrar meðferðar á Gyðingum í seinni heimstyrjöldinni. Múr sem blindar okkur í málefnum Ísraels og Palestínu. Brjótum eigin múra fortíðar og látum þá ekki koma í veg fyrir lausnir til framtíðar.