Thursday, October 22, 2009

Að sætta sig við kúgun er val

Í nýlegu Kastljósviðtali sá ég leiðtoga. Hann sló nýjan og þarfan tón. Eins og Ögmundur Jónasson orðaði það í téðu Kastljósviðtali, þá eru allir Alþingismenn í sama liði þegar kemur að því að verja hagsmuni Íslands og taka ákvörðun fyrir hönd okkar hinna.

Ögmundur Jónasson gegndi lykilhlutverki í að minnka þann skaða sem fólst í sumarútgáfu Icesave samkomulagsins. Sem hluti af stjórninni gat hann það með því að tryggja aukin lýðræðisleg vinnubrögð á þingi. Hann gekk óbundinn til leiks og óhlekkjaður af fyrirframgefinni niðurstöðu stjórnarinnar. Hann lagði áherslu á sátt um Icesave sem er eitt mikilvægasta mál okkar daga. Framlag Ögmundar var Íslandi til mikils framdráttar sem skilaði sér í vandaðri ákvörðun Alþingis.

Gæði ákvarðana og raunverulegt lýðræði ráðast af ferlinu. Þess vegna er aðskilnaðar framkvæmda- og löggjafarvalds svona mikilvægur og einn helsti mælikvarði á raunverulegt lýðræði. Gæði ákvarðana eru best tryggð þegar menn eru ekki bundnir af fyrirfram ákveðinni niðurstöðu. Ef byrjað er á því að ákvarða niðurstöðu þá er það mannlegt að leita uppi og heyra helst það sem styður þá niðurstöðu. Önnur sjónarmið og viðhorf verða undir og útkoman eftir því. Einn angi þessa kallast á ensku „confirmation bias“. Þessi óheppilega nálgun er ósköp mannleg og skýrð þannig að flest þolum við óvissu illa. Við viljum þess vegna minnka óvissu og með því að taka ákvörðun sem fyrst er óvissan minni og okkur líður betur. Gæði ákvörðunar líður hins vegar fyrir þetta. Í stefnumótun og stjórnun er þetta vel þekkt fyrirbæri og mikil áhersla lögð á að forðast slíkt - ef markmiðið er vönduð ákvarðanataka.

Nú á haustdögum ákvað stjórnin, án Ögmundar, að snúa til hins gamla verklags íslenskra stjórnmála. Stjórnin krafði sína þingmenn um fyrirframgefinn stuðning í Icesave - sem átti eftir að útfæra! Þetta er ekki mikið lýðræði eða vinnubrögð líkleg til árangurs. Þetta eru gömlu stjórnmálavinnubrögðin sem hafa lengi viðgengist á Íslandi. Aldursforsetarnir sem nú teljast leiðtogar Íslands hafa margoft sýnt að þau kunna lítið annað en gamla verklagið. Jóhanna lýsti því yfir þegar sumarútgáfa Icesave samningsins var kynnt að stjórnin þyrfti ekkert á þinginu að halda enda hefði stjórnin meirihluta. Hægt var að fá stimpil þingsins án umræðu. Jóhönnu fannst greinilega eðlilegt að stjórnarþingmenn styddu stjórnarmál blindandi enda höfðu þeir ekki kynnt sér málið þar sem gögnin lágu ekki fyrir!
Sama sagan endurtók sig í haust þegar Bretar og Hollendingar vildu breytt samkomulag. Jóhanna tryggði stuðning við Icesave innan Samfylkingarinnar - áður en útfærslan lá fyrir! Það segir allt sem segja þarf um þann flokk. Í sumar var hún og Samfylkingin sem betur fer stoppuð af.

Gamla ólýðræðislega vinnulag aldursforseta núverandi stjórnar er beinlínis skaðlegt fyrir Ísland. Um það vitnar skelfileg tillaga í Icesave sem nú liggur fyrir Alþingi. Þó flestir séu orðnir þreyttir á Icesave þá þarf að sýna staðfestu í þessu máli. Ég neita að trúa því að þingmenn ætli að láta þessa niðurlægingu ganga yfir þjóðina. Þá er þjóðin að taka á sig skuldir einkafyrirtækis sem okkur ber ekki að gera. Sé um það deilt og niðurstaða dómsstóla staðfestir slíkt þá leggur Jóhanna ennfremur til að Ísland afsali sér þeim rétti að slíkt sé sjálfkrafa leiðrétt. Það er lagt til að það verði þá Breta og Hollendinga að ákvarða hvort niðurstaðan skipti máli!?

Höfnum alfarið þeirri svívirðu sem stjórnvöld vilja leiða yfir þessa þjóð. Fyrirliggjandi tillaga er grundvölluð á mjög svo óvandaðri, ólýðræðislegri og gamaldags ákvarðanatöku. Stjórnin hefur hrópað úlfur úlfur margsinnis í ómerkilegum hræðsluáróðri sínum. Það sem gerist ef Alþingi hafnar Icesave er að Hollendingar og Bretar þurfa þá að sækja sinn rétt til íslenskra dómsstóla. Verði þeim að góðu. Þjóðin stendur þá eftir með minni skuldir en ella. Minni skuldir þýða að við erum í betri aðstöðu til að fá lánafyrirgreiðslu. Aukin skuldsetning er ekki forsenda fyrir lækkun vaxta – það er bull. Við þurfum ekki lán frá AGS og Norðurlöndunum. Ef þau verða notuð þá verður það til þess að lágmarka skaða erlendra spákaupmanna og eftir stendur enn skuldugri þjóð. Við ráðum yfir okkar eigin gjaldmiðli og við erum enn efnahagslega sjálfstæð.

Það að sætta sig við kúgun er val. Sýnum staðfestu og ábyrgð fyrir börnin okkar. Höfnum Icesave og sýnum þann manndóm að taka málin úr höndum þeirra sem beita kúgun.