Friday, October 2, 2009

Hin hliðin

Er það sanngjarnt að greiddur sé 10% fjármagnstekjuskattur þegar tekjuskattur á einstaklinga er margfalt hærri? Er ekki eðlilegt og sanngjarnt að leiðrétta þetta eins og stjórnvöld boða? Þetta hljómar kannski skynsamlega en það er önnur hlið á þessu máli.

Grunnstoðir ESB og EFTA byggja m.a. á því að fólk og fjármagn getur flætt óhindrað á milli landa. Ef lífskjör í einu landi versna þá getur fólk alltaf flutt úr landi. Á sama hátt er alltaf hægt flytja fjármagn og láta það vinna í öðru landi ef ávöxtun er ekki viðunandi. Á Íslandi eru að vísu tímabundin gjaldeyrishöft en þau geta ekki staðið lengi og það er og verður farið í kringum þau.

Hvað gerist við hækkun á fjármagnstekjuskatti? Tökum dæmi. Fjármagnstekjur teljast allar tekjur af fjármagni þ.m.t. verðbætur. Fjárfestar horfa hins vegar á raunvexti, þ.e. vexti umfram verðbólgu. Gefum okkur að 30% fjármagnstekjuskattur sé tekinn upp (úr 0% í 30%) í umhverfi þegar verðbólga er 10%. Gefum okkur einnig að fyrir skattahækkun þurfi 4% raunvexti til að fjárfestar velji að fjárfesta á Íslandi umfram önnur lönd. Eftir skattahækkun þá þurfa samsvarandi raunvextir að hækka úr 4% í 9,61% til að raunávöxtun sé jafngild fyrir og eftir skattahækkun!

Eins og þetta dæmi sýnir glöggt þá dregur hækkun fjármagnstekjuskatts úr hagkvæmni þess að fjárfesta á Íslandi. Fjárfestirinn getur þá látið fjármagn sitt vinna í öðrum löndum. Hluti fjárfesta mun gera það. Hvað gerist þá? Þá dregur úr fjárfestingum á Íslandi. Fjármagn leitar í auknu mæli út úr landi. Nýtt fjármagn leitar síður inn til landsins. Þetta mun veikja krónuna og þrýstingur verður á að hækka vexti til að bæta fyrir hækkun fjármagnstekjuskatts. Vextir þurfa að vera hærri til að styðja við krónuna. Verðbólga verður hærri vegna minni eftirspurnar eftir krónum. Með öðrum orðum. Hækkun fjármagnstekjuskatts mun stuðla að veikari krónu, hærri verðbólgu og hærri vöxtum.

Í stað þess að skoða hækkun fjármagnstekjuskatts út frá samanburði við tekjuskatt einstaklinga þá þarf að skoða fjármagnstekjuskatt milli landa. Það sama þarf að gera varðandi tekjuskatt einstaklinga enda getur fólk eins og fjármagn yfirgefið landið. Hin napra staðreynd er hins vegar sú að í efnahagslegu tilliti þá þarf Ísland nú um stundir nauðsynlega á fjármagni að halda.

Er hækkun fjármagnstekjuskatts skynsamleg fyrir Ísland og líkleg til að hjálpa til í endurreisninni?