Wednesday, September 2, 2009

Skuldir á verðbólgubál

Væri ekki indælt ef íslensk heimili skulduðu Zimbawe dollara? Þegar best lét á síðasta ári minnkaði slík skuld um helming að raunvirði eftir hverja 32 klukkutíma og 12 mínútur. Eftir vikuna stóð einungis 2% eftir af skuldinni vegna óðaverðbólgu.

Hefur þetta einhverja samsvörun við Ísland? Já og nei. Í fyrsta lagi er nú rætt um leiðir til að lækka skuldir heimila og það er vissulega hægt að lækka skuldir að raunvirði með verðbólgu ef skuldirnar eru á óverðtryggðum vöxtum en þó aðeins ef þeir vextir eru lægri en verðbólgan. Í annan stað liggur það fyrir að það eru bara tvær leiðir fyrir ríkissjóð að greiða skuldir sínar. Annars vegar með hækkun skatta og hins vegar með peningaprentun. Ef skuldir ríkisins eru orðnar meiri en mögulegar skatttekjur þá fækkar valkostunum niður í peningaprentun sem aftur ýtir undir verðbólgu.

Í síðustu viku tilkynnti Íslandsbanki að hann ætlar að lækka höfuðstól húsnæðislána myntkörfu- og verðtryggðra lána. Skilyrðið er að þeim sé breytt í óverðtryggð lán í krónum og þetta er gert í framhaldi af viðræðum við stjórnvöld. Þegar við þetta bætist, að skuldir ríkissjóðs stefna í hæðir sem setja spurningamerki við greiðslugetu ríkisins, þá er ekki að furða að spurt sé hvort þetta sé lausn stjórnvalda á skuldavanda heimilanna?

Ef landsmenn skulda óverðtryggðar krónur á vöxtum sem halda ekki í við verðbólguna og kynnt er undir verðbólgu með peningaprentun gerist a.m.k. tvennt. Skuldir skuldugra minnka og óverðtryggðar eignir rýrna. Þeir skuldugu verða ríkari og þeir ríkari verða fátækari.

Er þetta ekki draumur vinstri manna? Spyr sá sem ekki veit.