Friday, August 28, 2009

Einbeittur þrotavilji

Í dag samþykkti Alþingi að hagnaður banka sé einkavæddur en tapið og tjónið sé ríkisvætt? Auðmenn máttu hagnast þegar vel gekk en meirihlut Alþingis telur við hæfi að almenningur blæði þegar illa fer?

Hvenær samþykkti þjóðin þetta? Aldrei. Höfum við einhvern tímann undirgengist slíkt með Alþjóðasamningum? Nei. Breyttu neyðarlögin því? Nei, líkt og fjöldi lögfræðiálita vitnar um. Ef um þetta er hins vegar deilt þá þarf að leysa slíkt fyrir dómi.

Að samþykkja ríkisábyrgð er skaði sem þingmenn einir geta valdið þjóðinni. Því miður. Helsti ábyrgðarmaðurinn er Steingrímur J. Sigfússon. Vissulega tók hann við kefli m.a. frá fyrrum formanni Samfylkingarinnar sem lýsti því yfir að Ísland yrði að greiða Icesave til að forða tjóni fyrir bankakerfi Evrópu. En Steingrímur ætlar sér að fullkomna glæpinn.

Hegðun Steingríms er að vísu hætt að koma mér á óvart enda hefur hann sýnt það ótvírætt undanfarna mánuði að völd eru honum mun ofar hugsjónum. Hugsjónir, málefni og fyrirheit víkja eftir því hvort hann er í stjórn eða stjórnarandstöðu svo sem glögglega má sjá í þessu viðtali hér og fjöldi dæma undanfarið vitnar um.Eftir búsáhaldabyltinguna stöndum því uppi með stjórnvöld sem að mínu viti sýna ansi einbeittan þrotavilja fyrir hönd íslensku þjóðarinnar. Að færa skuld sem okkur ber ekki að greiða yfir á þjóðina sem getur auðveldlega komið okkur í þrot. Vissulega bæta fyrirvarar hörmulegan samning sem átti að keyra í gegnum þingið. En fyrirvararnir breyta þó engu um þá staðreynd að okkur ber ekki að greiða þá hundruði milljarða sem um ræðir. Það er kjarni málsins. Þessi sömu stjórnvöld vilja nú að þeir sem ollu skaðanum verði dregnir til ábyrgðar. Gott mál. Með samþykkt ríkisábyrgðar verður hins vegar til hvað mestur skaði vegna hrunsins – ekki fyrr.

Þess vegna verður að draga þá til ábyrgðar sem samþykkja Icesave. Þar er klárlega verið að skaða þjóðina að óþörfu og skaðinn er algerlega fyrirséður. Þar fyrir utan er Icesave of stórt mál fyrir meirihluta þingheims að ákveða. Að taka á sig skuldir og tjón sem einkafyrirtæki veldur ætti bara að vera þjóðarinnar að ákveða. Greiðsluvilji þeirra sem fá slíkan reikning næstu áratugina verður ekki mikill ef nokkur. Eigum við þá að fara á hnéin og biðja um skulda-niðurfellingu? Það verður þá undir Bretum og Hollendingum komið að ákveða. Þær þjóðir kunna að gæta hagsmuna sinna. Kunnum við það?

Ef fjölmiðlalögin ollu á sínum tíma gjá á milli þings og þjóðar þá er hér um mun stærra mál að ræða.