Tuesday, July 14, 2009

Ólöglegt? Ósiðlegt?

Þorvaldur Gylfason ritaði nýlga grein í Fréttablaðið (Löglegt? Siðlegt?) og útskýrir ágætlega sjónarmið ESB varðandi Icesave. Hann útskýrir m.a. af hverju íslensk þjóð ætti að ábyrgjast Icesave af siðferðilegum ástæðum ef lagaleg rök skortir. Siðferðilega sé íslensk þjóð skuldbundin m.a. vegna yfirlýsinga íslenskra ráðamanna.

Lög skulu standa
Það er vissulega gagnlegt í deilumálum að setja sig í spor mótaðilans. Þorvaldur setti sig í spor ESB. Setjum okkur einnig í spor Íslands. Ísland er réttarríki þar sem við búum við löggjöf sem aftur byggir á stjórnarskrá okkar. Stjórnarskráin er eins konar samfélagssáttmáli okkar. Við þurfum að geta treyst því að stjórnarskráin sé virt sem og að lög og orð standi. Annað býr til óreiðu, ringulreið og vantraust í stað reglu og festu.

Virðum stjórnarskrána
Stjórnarskráin eru æðstu lög Íslands. Samkvæmt stjórnarskránni (grein 40) þá má ekki taka lán er skuldbindur ríkið nema samkvæmt lagaheimild. Ef lagaheimild skortir þegar einhver ráðamaður gefur yfirlýsingu um lán eða ábyrgð sem tryggja þarf með láni þá er er slík yfirlýsing þannig ekki í samræmi við stjórnarskrána.

Siðferðileg krafa
Hugsum okkur nú að þessi sjónarmið verði ofaná varðandi Icesave. Að það sé siðferðileg skylda okkar að ábyrgjast Icesave í ljósi yfirlýsinga ráðamanna þó svo að lagaheimildir skorti. Að það sé siðferðilega í lagi að slíkt standist ekki lög og sé jafnvel brot á stjórnarskrá? Siðferðileg skylda að virða ekki eigin samfélagssáttmála? Gengur það upp? Eflaust ásættanlegt fyrir ESB. Alls ekki ásættanlegt fyrir Ísland.

Ekkert að óttast
Með rökum og forsendum um siðlega breytni gagnvart Bretum þegar lagarök skortir er því í mínum huga lögð til ósiðleg og hugsanlega ólögleg breytni gagnvart eigin þjóð. Í þessu ljósi er enn meiri ástæða til að fá niðurstöðu fyrir dómi um Icesave ábyrgð ríkisins. Þá kemur einnig í ljós hvort t.a.m. fyrrum utanríkisráðherra Íslands og þáverandi formaður Samfylkingarinnar gerðist brotlegur við lög og/eða skapaði þjóðinni ábyrgð með yfirlýsingum sínum fyrir og eftir hrunið. Ábyrgð sem ljóst er að þjóðin stendur ekki undir ef á reynir. Þarf einhver að hræðast niðurstöðuna? Er það kannski hin raunverulega ástæða mótstöðunnar við að fara dómsstólaleiðina?