Wednesday, June 3, 2009

Stiglitz varaði Seðlabankann við 2001

Árið 2001 varaði hagfræðingurinn og nóbelsverðlaunahafinn Joseph Stiglitz Seðlabanka Íslands við fjármagnshreyfingum spákaupmanna í hávaxtaumhverfi. Í skýrslunni leggur Stiglitz til ýmsar leiðir til að draga úr áhættunni. Ennfremur kemur hann fram með ýmsar tillögur sem miða að því að stemma stigu við erlendri lántöku íslenskra heimila og fyrirtækja. Hann kemst ansi nærri því að lýsa mögulegum afleiðingum þess ef markaðurinn er látinn afskiptalaus. Áhættan lendi ekki á gerendum heldur samfélaginu. Þetta er mikið til staðreynd á Íslandi í dag. Í ljósi stöðunnar, gjaldeyrishafta og hruns krónunnar, hefði Seðlabankinn betur farið að ráðum nóbelsverðlaunahafans.

Á þessum tíma var Már Guðmundsson aðalhagfræðingur Seðlabankans. Síðar tók Arnór Sighvatsson við og var aðalhagfræðingur bankans þegar krónan hrundi 2008. Undir forystu og leiðsögn þeirra var ekki gripið til þeirra aðgerða sem Stiglitz lagði til. Hins vegar má spyrja hvort ekki sé líklegt að við værum í allt öðrum sporum nú og klárlega ekki með gjaldeyrishöft ef hlustað hefði verið á Stiglitz. Mikið flökt krónunnar og hrun hennar í tvígang, árið 2001 og 2008, er bein afleiðing há- vaxtastefnu seðlabankans.

Það er því vægast sagt undarlegt að þessir menn séu nú metnir hæfir til að gegna stöðu seðlabankastjóra. Hvað þá hæfastir! Þeir eru beinlínis með allt niður um sig. Það er mikið lagt upp úr sjálfstæði Seðlabanka Íslands. Hins vegar þá þarf ábyrgð að fylgja sjálfstæði. Seðlabankinn hefur sjálfstæði og nú þurfa þeir sem réðu ferðinni og klúðruðu málum síðasta áratuginn að axla ábyrgð.

Þeir sem reyndust vanhæfir þurfa að víkja. Það er forsenda þess að sátt ríki um Seðlabankann og frumforsenda trúverðugleika.