Tuesday, June 2, 2009

Sagan, dýrseðlið og Ísland

Í nýlegri grein Rogoff og Reinhart eru núverandi kreppur bornar saman við helstu kreppur þessarar aldar. Með núverandi kreppum er átt við ástandið á Íslandi, Austurríki, Ungverjalandi, Írlandi, Bretlandi, Spáni og BNA. Þar kemur m.a. fram að samdráttar í framleiðslu er að meðaltali 9% og varir í tæp 2 ár. Raunlækkun húsnæðis er að meðaltali 36% sem kemur fram á 6 árum. Þannig gefur þessi samantekt okkur einhverjar vísbendingar um hvernig framhaldið gæti þróast á Íslandi.

Hins vegar segir þessi grein líklega fyrst og fremst að hvert tilvik er einstakt og afar misjafnt hvernig tekst til. Það hversu mismunandi fljótt lönd ná sér eftir áföll er athyglisvert. Þar skipta grunnforsendur í hagkerfinu vissulega máli og hvaða verkfærum er hægt að beita og hvernig þeim er beitt.

Það sem hins vegar gleymist oft en er ekki síður mikilvægt eru óáþreifanlegir þættir. Sjálfsálit, trúin á eigin getu, almennt traust og viljinn að sækja fram á eigin forsendum skiptir miklu. Keynes gamli notaði hugtakið dýrseðli (e. animal spirit) um þennan mikilvæga eiginleika.

Í okkar tilviki þá má vissulega færa fyrir því rök að dýrseðlið og skortur á heilbrigðri skynsemi hafi átt sinn þátt í að skapa kreppuna. En á sama hátt mun dýrseðli sem felst í sjálfstrausti, framsækni, keppnisanda og djörfung ásamt skynsemi, heilbrigðum gildum og samheldni hjálpa okkur út úr kreppunni.