Thursday, June 25, 2009

Þorum við að vera til?

Í umræðunni um Icesave ber nokkuð á því sjónarmiði að við höfum ekkert val. Að við þurfum að sætta okkur við afarkosti og þvinganir, að okkur sé neitað að leita réttar okkar fyrir dómi og að við tökum ábyrgð á skuldbindingum einkafyrirtækis sem ljóst er að við getum ekki staðið undir ef á reynir.

Þetta er gjarnan réttlætt eitthvað á þá leið að við séum búin að glutra niður samningsstöðu okkar, við séum komin með landsstjóra frá AGS og að við ráðum í raun ekki okkar málum lengur. Ef við þorum að krefjast dómsstólaleiðarinnar, þ.e. að fá niðurstöðu um ríkisábyrgð vegna Icesave, þá verði Íslandi einfaldlega úthýst og einangrað.

Með því að samþykkja ríkisábyrgð er raunveruleg hætta á því að við fórnum efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar, skuldsetjum afkomendur okkar, skerðum hér lífskjör til frambúðar meira en ella og í þokkabót fáum ekki að vita hvort okkar bar skylda til þess! Ef Alþingi hins vegar hafnar ríkisábyrgð þá fæst niðurstaða. Sú niðurstaða getur orðið sú að farin verður dómsstólaleiðin og þar með erum við strax í betri sporum en í dag EÐA að hagsmunir samningsaðila séu einfaldlega þeir að semja á nýjum forsendum. Að hafna samningi getur því varla leitt til verri niðurstöðu en nú liggur á borðinu.

Þorum við að standa á rétti okkar og standa upprétt í alþjóðasamfélaginu. Þorum við að vera þjóð meðal þjóða sem fer fram á jafnan rétt á við aðrar þjóðir - að leysa ágreiningsmál með dómi? Þorum við að gera kröfu um slíkt og hvika hvergi? Þorum við að andmæla ESB? Þorum við yfirhöfuð að vera til?
Almenningur fór ekki fram með lygum og blekkingum gagnvart öðrum þjóðum. Hafi einhver skuldbundið þjóðina án heimildar með þessum afleiðingum þá verða hinir sömu að axla ábyrgð. Það kemur þá í ljós með dómsstólaleiðinni. Fyrir dómi yrði einnig skoðað hvaða yfirlýsingar ýmsir stjórnmálamenn gáfu og hvort þær yfirlýsingar séu grundvöllur ríkisábyrgðar jafnvel þegar engar lagalegar forsendur voru fyrir slíku.

Er það kannski eitthvað sem sumir stjórnmálamenn hræðast og því berjast þeir á móti dómsstólaleiðinni eða hafa sig lítt í frammi að verja hagsmuni Íslands?