Friday, June 5, 2009

Okkur ber ekki að borga krónu!

Hvað er með þessa ríkisstjórn?! Hún virðist vera ánægð með að greiða 5,5% vexti (11 sinnum stýrivexti í Bretlandi) af 650 milljörðum og byrja síðan að borga niður höfuðstólinn eftir sjö ár. Bara vextirnir eru meiri en afrakstur (nettó) allra þorskveiða Íslendinga! Það gleymist bara eitt "smáatriði". Okkur ber ekki að að borga þetta! Okkur ber engin skylda að leiðrétta galla í regluverki ESB. Punktur.

Samfylkingin ákvað á sínum tíma að rétt væri að bjarga bankakerfi ESB með íslenskri ríkisábyrgð og þannig á kostnað framtíðar Íslands. Samfylkingin virðist ekki geta séð beint vegna ESB ofbirtu. Þessa endalausu vitleysu þarf að stoppa. Steingrímur J. hafði uppi stór orð á þingi þegar þessi mál komu fyrst upp. Hann var að vísu ekki í stjórn þá en það á ekki að skipta máli enda hefur ekkert breyst varðandi Icesave.

Það hafa komið fram ýmiss sjónarmið og lögfræðiálit vegna Icesave en ekkert þeirra hefur sýnt fram á að Ísland hafi nokkurn tímann undirgengist ríkisábyrgð. Tilskipun ESB kveður heldur ekki á um ríkisábyrgð. Um þetta má lesa t.d. hér og hér. Nú ef það er einhver ágreiningur - af hverju vill ESB og Samfylkingin þá ekki fá niðurstöðu fyrir dómi? Það eru hagsmunir Íslands. Það eru hins vegar ekki endilega hagsmunir fyrir ESB.

Það er bæði sjálfsagt og eðlilegt að þær leikreglur sem við höfum undirgengist í formi ESB tilskipana séu virtar. Ef sá réttur er virtur þá ber okkur ekki að borga eina krónu. Regluverk ESB er meingallað. Þetta mál á ekki að hafa neitt með Ísland að gera. Það er hins vegar stórt hagsmunamál fyrir ESB að leysa eigið klúður. Hagsmunir ESB eiga hins vegar ekki að vera á kostnað framtíðar Íslands jafnvel þó svo að Samfylkingin telji það sjálfsagt og vilji í ESB.