Saturday, June 6, 2009

Jafnræðisregla ESB styður málstað Íslands að greiða ekki Icesave

Þeir sem vilja skuldsetja Ísland vegna Icesave vitna gjarnan til þess að íslensk stjórnvöld tryggðu innstæður á Íslandi en ekki erlendis í október 2008. Rök þessara manna er að slíkt feli í sér mismunun sem sé ekki heimil samkvæmt jafnræðisreglu ESB eða 65 grein stjórnarskrárinnar. Þetta er hins vegar bara tæplega hálfur sannleikur. Hálfur sannleikur er hins vegar oft mesta vitleysan.

Það er rétt að jafnræðisregla ESB bannar mismunun eftir þjóðerni. Það var hins vegar ekki mismunað eftir þjóðerni þar sem um er að ræða aðgerð sem beindist að landssvæði - Íslandi. Íslendingar jafnt sem útlendingar nutu ríkisábyrgðar ef þeir voru með innstæður á Íslandi alveg eins og að Íslendingar jafnt sem útlendingar nutu ekki ríkisábyrgðar erlendis. Það er því ekki hægt að halda því fram að mismunað sé á grunni þjóðernis. Sumir (ekki allir) Íslendingar og sumir (ekki allir) útlendingar nutu ríkisábyrgðar íslenska ríkisins, á innstæðum sínum í íslenskum bönkum, allt eftir því hvar þeirra innstæður voru. Að beina aðgerðum á viss landssvæði en ekki önnur er alþekkt og tíðkað í ESB og sem dæmi þá neitaði Alister Darling fjármálaráðherra Breta að ábyrgjast innistæður á Mön.

Í annan stað er jákvæð mismunun líka hluti af jafnræðisreglunni (sjá kafla 1, grein 5). Hugsunin á bakvið jákvæða mismunun er að auka jafnræði þeirra sem hallar á og/eða koma í veg fyrir að vissir hópar lendi í slíkri stöðu. Jákvæð mismunun er þannig hluti af jafnræðinu og leyfð í tveimur tilvikum:
  1. Ef tiltekinn hópur á undir högg að sækja og æskilegt er að rétta hans hag (t.d. konur, svartir, múslimar, Serbar, minnihlutahópar ...).
  2. Ef aðgerð kemur í veg fyrir að ákveðinn hópur komist í þá stöðu að eiga undir högg að sækja.

Ef Ísland hefði ekki tryggt innstæður á Íslandi þá hefði allt stöðvast hér. Engin fyrirtæki hefðu þá getað greitt út laun, allar greiðslur stöðvast, atvinnulífð hefði þá líka stöðvast í október og greiðslumiðlunin í landinu einnig. Þá er augljóst að ástandið nú er barnaleikur miðað við það sem þá hefði orðið. Þá fyrst hefði "hópurinn" Íslendingar átt verulega undir högg að sækja. Þess vegna eru veigamikil rök í Icesave málinu að einmitt á grunni jafnræðisreglu ESB þá sé þessi mismunun réttlætanleg. Þetta var neyðarráðstöfun til að tryggja að hópurinn Íslendingar ætti möguleika að komast í gegnum þetta áfall. Jafnræðisreglan er því frekar rök gegn því að greiða Icesave en með.

Þetta eru ekki einu rökin sem hægt er að benda sem hrekja jafnræðisrökin sem haldið hefur verið á lofti. Sem dæmi hefur verið bent á rök á sviði neyðarréttar sem styðja þessa aðgerð að ógleymdri þeirri staðreynd að Bretar frystu eignir LÍ og tóku þannig ekki bara eignirnar yfir heldur einnig skuldirnar með tilheyrandi skaða fyrir íslenska þjóð.

Einnig skiptir máli að bættur hagur Íslendinga er ekki á kostnað annarra. Hagur Icesave innstæðueigenda breyttist ekkert við það að beitt var jákvæðri mismunun. Það var engin ríkisábyrgð fyrir neyðarlögin og breytist ekki eftir setningu þeirra (sjá töflu). Líkt og áður þurftu þeir að treysta á tryggingarsjóð innstæðueigenda. Það sem hins vegar breytist er að möguleikar Íslands að vinna sig út úr áfallinu vænkast og þar með líkur á að erlendir kröfuhafar fái greitt. Hagur erlendra innstæðueigenda er óbreyttur en hagur erlendra kröfuhafa batnar. Hagsmunir ESB voru hins vegar að bjarga bankakerfi Evrópu - og þá á kostnað framtíðar Íslands.

Rökin að borga á grunni jafnræðisreglu ESB ganga því ekki upp og eru fremur rök fyrir því að við eigum ekki að greiða Icesave. Hins vegar, ef uppi er lagalegur ágreiningur um málið, þá er það siðaðra þjóða háttur að fá úr slíku skorið fyrir dómstólum. Það er hagur Íslands að við fáum úr þessu skorið fyrir dómstólum. Það vildi Samfylkingin og ESB ekki. Það er ekki hagur ESB og Samfylkingin vill í ESB og greinilega tilbúin að fórna flestu fyrir þann draum.