Wednesday, May 6, 2009

Orðlaus: Bretland refsar vegna skoðana!

Ja hérna! Er þetta Bretlands nútímans! Í frétt á BBC kemur fram að bandarískur útvarpsmaður hefur verið settur á lista yfir óæskilega aðila og bannað að koma til Bretlands - vegna skoðana sinna. Tjáningarfrelsi er hornsteinn lýðræðisins. Í Bandaríkjunum er þetta t.a.m. varið í fyrstu grein stjórnarskrárinnar. Í 19. grein mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna er kveðið skýrt á um þessi grunn mannréttindi og svo mætti lengi telja.

Ef "ríkið" telur skoðanir einhvers ógnandi er þá rétta leiðin að útiloka þær? Er rétt að reyna að koma í veg fyrir að einstaklingar tjái sig ef það er hugsanlega á skjön við "skoðun ríkisins"?


Það er a.m.k. tvennt við þetta sem gengur ekki upp. Í fyrsta lagi, þá er "ríkinu" stýrt af einstaklingum. Skoðanir þeirra einstaklinga móta "skoðanir ríkisins" hverju sinni. Ef "ríkinu" leyfist að setja bann á menn vegna skoðana og þess að "ríkið" heldur því fram að skoðanir ógni hagsmunum "ríkisins" þá erum við að segja a.m.k. tvennt: Einstaklingarnir á bakvið "ríkið" eru óskeikulir og til er ein "rétt" skoðun. Augljóslega er það ekki svo.

Í öðru lagi, ef skoðanir eru taldar ógnandi eða fáranlegar, þá dæma þær sig sjálfar. Slíkar skoðanir hljóta þá ekki hljómgrunn. Skoðanir sem hljóta ekki hljómgrunn eru varla ógnandi. Ef skoðanirnar hins vegar hljóta hljómgrunn meðal fjölda fólks og verða þannig "ógnandi", þá er líklega eitthvað til í þeim skoðunum. Það ætti allavega að vera full ástæða til að slíkar skoðanir komi fram og um þær fari fram hreinskiptar umræður. Bann vegna skoðana getur ekki verið lausn.

Ekki að furða að þetta mál valdi undrun, deilum og að upp vakni ýmsar áleitnar spurningar um stöðu mannréttinda á Vesturlöndum í reynd svo sem sjá má hér, hér hér og hér sem dæmi.