Thursday, May 7, 2009

Ofbeldi Breta í gegnum AGS

„Mikilvægast er að íslensk stjórnvöld borgi. Þessvegna erum við í viðræðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og önnur yfirvöld um hversu hratt Ísland mun borga til baka af því tjóni sem landið er ábyrgt fyrir."

Þetta er haft eftir Gordon Brown samkvæmt frétt á visi.is í dag: Hér gerir Brown ekki greinarmun á einkafyrirtæki og þjóð. Ef einkafyrirtæki fer fram í krafti gallaðra ESB reglna eða brýtur á rétti einhvers þá er það ekki íslenskra skattgreiðenda að borga, jafnvel þó svo að eigendur séu íslenskir. Skaði af gölluðum reglum ESB á ekki að lenda á íslenskum skattgreiðendum - ekki eitt einasta pund. Ef Brown er að vitna í Icesave þá er það rétt að íslenskir eftirlitsaðilar stóðu sig ekki vel og hefðu getað gert betur. Hins vegar breytir það ekki því að skúrkurinn í málinu var einkafyrirtæki sem nýtti gallað regluverk ESB.

Ef það er ágreiningur um uppgjör vegna Icesave þá er það eðlilegt, sanngjarnt og siðaðra þjóða háttur að leysa slíkt fyrir óháðum dómsstóli og una síðan niðurstöðunni. Þessum sjálfsagða rétti neita Bretar okkur um. Þess í stað er AGS og ESB beitt. Jafnvel sú staðreynd að við erum hluti af EES og samstarfsþjóð í Nato dugar ekki til að þeir heimili okkur að fá niðurstöðu í þetta mál fyrir dómi. Slíkt er ofbeldið.