Saturday, May 30, 2009

Að geta þess sem vel er gert

Alþingi og ríkisstjórn takast nú á við margvísleg erfið og umdeild verkefni vegna endurreisnar fjármálakerfis, atvinnulífs og heimilanna. Hluti af farsælli lausn er að sem ríkulegust samstaða náist um lausnir og stefnu til framtíðar. Þó svo að mál séu mikilvæg þá eru sum mál brýnni en önnur við núverandi aðstæður. Mál sem hafa ekki með lausn á núverandi vanda að gera og eru þar að auki líkleg til að ala á ósamstöðu með þjóðinni eru sérlega vandmeðfarin. Slík mál getur verið farsælla að leggja til hliðar eða vinna þeim frekara fylgi með upplýstri, opinni og lýðræðislegri umræðu. Vissulega geta verið mismunandi skoðanir á því hvaða mál teljast brýn og hver ekki. Aðildarumsókn að Evrópusambandinu er eitt þessara mála og ríkur efniviður í klofning meðal þjóðarinnar. Það er því fagnaðarefni að sjá ábyrga og málefnalega tillögu nýrrar forystu Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks um fyrirkomulag og undirbúning aðildarviðræðna að ESB. Í tillögum stjórnarandstöðunnar er lögð til nálgun sem ætti að geta skapað breiðari sátt og samstöðu um þetta mjög svo umdeilda mál. Það er traustvekjandi.