Friday, May 8, 2009

Þversögn Moggans, evra og íslensk króna

Í leiðara Moggans í dag er föðurlega ítrekað að ríkis- og peningamál þurfa að vera í takti. Sammála því. Þessi sami leiðari hefur hins vegar síendurtekið hamrað á því að evran sé besta lausnin! Ef evran er besta lausnin þá er sjálfstæði okkar í peningamálum kastað fyrir róða. Þetta er augljós þversögn hjá Mogganum, vegna þess að ef það er mikilvægt að ríkis- og peningamál séu í takti í dag þá gildir það líka eftir að evra yrði tekin upp. Það er hins vegar ekki hægt að tryggja neitt slíkt ef búið er að fórna sjálstæðri peningastjórn!

Sú alvarlega kreppa sem nú geisar bítur ansi mismunandi hjá þeim 16 ríkjum sem eru með evruna. Þýskaland hefur verið með álíka mikinn afgang af utanríkisviðskiptum og Spánn - bara með öfugu formerki! Skuldir ríkjanna, skuldir heimilanna, framleiðslan og atvinnustigið er mjög mismunandi. Aldrei fyrr hefur reynt svona á evru samstarfið.

Öll þessi ríki þurfa þá eðli máls samkvæmt að grípa til mismunandi aðgerða í ríkisfjármálum sem aftur þarf að vera í takti við peningastefnuna. Hins vegar eru þau öll bundin af einni og sömu peningastefnunni. Peningastefnu evrópska seðlabankans og háð gengi evrunnar. Það að ríkisfjármál og peningamál séu í takti er því ekki í boði. Allir verða sætta sig við sömu lausnina í peningamálum þó svo að ríkin séu með mismunandi þarfir. Þannig að rök Morgunblaðsins að peningastefna og ríkisfjármál þurfi að vera samræmd OG að evran henti Íslandi best - ganga alls ekki upp. Þegar búið er að henda sjálfstæðri peningastefnu þá verður að treysta á vinnumarkað, til að bregðast við áföllum, og við losnum ekki við áföll þó svo að við göngum í ESB.Ef peningastefna evrópska seðlabankans hentar ekki Íslandi þá er augljóst hvað gerist. Samkeppnishæfni landsins minnkar og atvinnuleysi á Íslandi eykst. Viðbrögð við áföllum koma fram í hærra atvinnuleysi og líklega langvarandi. Það hefur í för með sér fólksflutninga frá svæðum þar sem atvinnuleysi er - til svæða sem bjóða vinnu. Er þá fyrst ekki komin þörf fyrir byggðastefnu - að reyna að halda Íslandi í byggð.

Þetta eru ekki bara einhverjar vangaveltur. Þetta er það sem virtir hagfræðingar eru að skrifa um. Í þeim hópi eru líka nóbelsverðlaunahafar sem vara við að treysta á sveigjanleika í formi launalækkana - slíkt kallar á enn meira atvinnuleysi. Gjaldmiðlasvæði evrunnar getur aldrei orðið annað en "sub-optimal" lausn.

Líkt og Íslendingar íhuga núna, þá tóku Finnar upp evru í framhaldi af kollsteypu í efnahagsmálum. Af hverju ætli viðskiptaráðherra Finnlands láti nú hafa eftir sér að upptaka evru hafi verið mistök. Af hverju ætli þessi írski hagfræðingur og fyrrum starfsmaður seðlabanka Írlands óski þess að Írland gæti unnið sig út úr kreppunni með eigin gjaldmiðli líkt og Ísland. Líklega vegna þess að gallar evrunnar eru alvarlegir og þeir koma berlega í ljós í kreppu. Fyrir Finna og Íra er ekkert val. Þeir eru búnir að fórna sjálfstæðri peningastjórn.

Til samstarfs um evruna var ekki stofnað vegna þess að það væri hagkvæmt gjaldmiðlasvæði. Sameiginleg mynt var pólitísk ákvörðun. Evran hefur kosti en líka stórkostlega galla. Krónan hefur galla en líka stórkostlega kosti - þegar rétt er á haldið.