Saturday, May 2, 2009

Eru helstu fréttirnar þær sem þagað er yfir?

Ég er óneitanlega hugsi yfir því að þessar nýlegu fréttir frá Evrópu og Bandaríkjunum þykja ekki fréttaefni fyrir umræðuna á Íslandi:

Það er því auðvelt að álykta sem svo að blöð sem þegja yfir svona fréttum séu málpípur pólitískar skoðana. Fréttamiðill sem pólitísk málpípa er hins vegar áróður. Fréttamiðlar eiga að segja fréttir og þurfa að gæta jafnvægis. Það er síðan lesenda að meta innihald frétta og túlka. Ég er einn þeirra sem vill gjarnan skoða kosti og galla í stað þess að lesa fréttir sem eru í raun dulbúnar skoðanir. Til þess þarf ég ekki bara fréttir - heldur hlutlausar fréttir og fréttir sem styðja ólík sjónarmið.

Michael Porter hefur útskýrt ágætlega hættuna af því að mynda sér skoðun á málefni of snemma. Sé það gert fer upplýsingavinnsla þess einstaklings ósjálfrátt að snúast um að réttlæta þá skoðun og útilokar aðrar upplýsingar og viðhorf. Þetta er mjög mannlegt en kemur í veg fyrir að mál séu metin heildstætt. Porter leggur mikla áherslu á að taka afstöðu eins seint og hægt er og ef möglegt er - taka ekki afstöðu.

Porter útskýrir einnig hversu flókið og óþægilegt það er fyrir manninn að taka ekki afstöðu. Það helgast helst af því að við mannfólkið þolum óvissu illa. Með því að taka ekki afstöðu þá búum við til óvissu sem við viljum vera án. Þess vegna viljum við gjarnan taka af skarið og taka afstöðu strax. Hins vegar með því að taka ekki afstöðu þá höldum við upplýsingavinnslu og gáttum okkar opnum fyrir ólíkum skoðunum og staðreyndum. Með þeim hætti er betur tryggt að upplýsingavinnslan nýtist til að fá heilstæða mynd af málefninu sem aftur er forsenda þess að taka upplýsta og skynsama ákvörðun.