Wednesday, May 6, 2009

Heimsmeistarar eiga aðra dollu skilið!

Myndin sýnir að þó svo að Seðlabanki Íslands myndi lækka vexti um 10% stig á morgun, þ.e. niður í 5,5%, þá væri Ísland enn út úr öllu korti með sína vexti.


Það hefur verið sýnt fram á að háir vextir veikja krónuna þar sem reglurnar heimila að vaxtagreiðslum sé skipt út fyrir gjaldeyri og hærri vextir þýða hærri vaxtagreiðslur sem skipt er í gjaldeyri sem aftur veikir krónuna. Það er síðan augljóst að hærri vaxtagreiðslur en þær sem koma inn vegna getu hagkerfisins að búa til gjaldeyri, veikir krónuna og rýrir þar með ISK eigur erlendra aðila mælt í erlendri mynt. Þannig að of háir vextir eru ekki einu sinni hagur spákaupmanna. Þannig að það er engin ástæða fyrir þessu vaxtastigi og alls engin í ljósi hafta.

Kannski að aðstoðarseðlabankastjóri sé að gera sér vonir um annan bikar frá Drobny Global Advisors. Spákaupmennirnir afhentu honum dollu á síðasta ári þar sem "þátttakendur voru sammála um að vaxtamunaviðskipti með krónuna væru góð leið til að ávaxta sitt pund." Við erum jú heimsmeistarar hvað háa vexti áhrærir, krónan hrundi 2001 og 2008 þegar spákaupmenn hófu að selja sínar krónur. Við skulum heldur ekki gleyma því að gjaldeyrishöftin eru jú vegna jöklabréfanna. Þannig að þetta eru ótvírætt mikil afrek.

Er það ekki bara sanngjörn og eðlileg krafa að seðlabankinn fái annan bikar, hann á það fyllilega skilið - annan háðungarbikar? Ég styð það - bara ekki gleyma að láta uppsagnarbréfin fylgja með í dollunni. Það er hluti af endurreisninni.


Það er vægast sagt sérstakt að núverandi stjórn hefur séð ástæðu til að verðlauna þá sem eru ábyrgir fyrir peningastefnunni mörg undanfarin ár. Þeir fengu stöðuhækkun þegar Davíð var sparkað. Aðalhagfræðingur var gerður að aðstoðarseðlabankastjóra og aðstoðarmaður aðalhagfræðings var gerður að aðalhagfræðingi. Vantar bara aðra dollu - þá er vitleysan fullkomnuð.

Talandi um trúverðugleika!