Friday, April 24, 2009

Vextir hækka við upptöku evru

Slóvakía tók upp evru í byrjun þessa árs og Moodys hefur nú lækkað lánshæfimatshorfur landsins og vextir hækkað í framhaldinu. Moodys rökstyður þessa lækkun að hluta með því að samkeppnishæfni landsins hefur versnað við upptöku evru þar sem erfiðara er að bregðast við áföllum.

Samfylkingin heldur því m.a. fram að vextir lækki við það eitt að ganga í ESB enda sé þá evran í sjónmáli. Er það nú víst? Ætli það fari ekki eftir því hvort erlendir fjárfestar telja áhættuna aukast eða minnka við slíka inngöngu og upptöku annars gjaldmiðils. Með upptöku evru er búið að taka út eina helstu breytuna til að bregðast við áföllum.

Heldur Samfylkingin að það verði ekki áföll á Íslandi við það eitt að ganga í ESB? Það þætti mér merkilegt. Þegar það verða áföll og möguleikar okkar að bregðast við eru minni en áður og afleiðingarnar þar af leiðandi meiri - eiga þá fjárfestar að verðlauna slíkt með því að lækka vexti? Hvernig má það vera? Það minnkar varla áhættuna að taka stjórntækin í burtu. Það gerir landið viðkæmara fyrir áföllum og áhættumeira að fjárfesta í.

Stóru áföllin hér s.l. áratug má að vísu rekja til íslenska seðlabankans og hávaxtastefnunar. Þannig að það er til einhvers að vinna að losna við þá áhættu. En ég spyr á móti hvort ekki sé skynsamlegra að skipta út helstu hagfræðingum seðlabankans en að skipta út krónunni?