Thursday, April 2, 2009

Að verðlauna klúður með stöðuhækkun

Það er einkar athyglisvert að meðal umsækjenda að seðlabankastöðu séu tveir fyrrum aðalhagfræðingar seðlabankans og að fyrrum aðstoðarmaður aðalhagfræðings er orðinn aðalhagfræðingur bankans. Eru þetta ekki aðal höfundar eins mesta klúðurs Íslandssögunnar?


Hin síðari ár hefur krónan hrunið í tvígang. Í bæði skiptin var það bein afleiðing hávaxtastefnu Seðlabanka Íslands. Fyrst gerðist það 2001 og síðan 2008. Hávaxtastefna bankans er ástæða þess að það eru gjaldeyrishöft á Íslandi í dag. Vegna hávaxtastefnunnar eru mörg hundruð milljarðar inni í kerfinu og það er ekki hægt að hleypa þessum upphæðum út þar sem það myndi endanlega eyðileggja gjaldmiðilinn. Það er ástæða hafta.

Hverjir eru ábyrgir? Að sjálfsögðu eru það hagfræðingar innan seðlabankans sem réðu þessari stefnu. Hverjum dettur eiginlega í hug að verðlauna klúður þessarra snillinga með stöðuhækkunum og jafnvel nýjum stöðuveitingum þeim til handa? Eitt er að þekkja ekki sinn vitjunartíma og sækja um - það er síðan annað að ráða í stöðurnar. Enn ein öfugmælin úr þessari átt.