Wednesday, April 8, 2009

"Service the debt ..."

Í gær þegar heimsmet í stýrivöxtum fyrir þjóð á barmi gjaldþrots var réttlætt, spurði Björgvin Guðmundsson blaðamaður MBL, seðlabankastjórann hvernig lægri vextir geta veikt krónuna.

Svarið var stórundarlegt. Blaðamanninum var svarað þannig að Ísland hefði verið með viðskiptahalla s.l. 15 ár - fjármagnað af öðrum ríkjum. Síðan var bætt við: "That debt burden is now being served by the economy".

Bíðið við. Viðskiptahalli undanfarin 15 ár og innilokaðar eignir spákaupmanna, sem hafa nýtt sér glórulausa hávaxtastefnu seðlabankans, er sett í samhengi við ákvörðun um innlenda vexti til næstu framtíðar - hvaða hagfræði er þetta? Á að skilja þetta svar svo að okurvextirnir séu réttlættir þannig að þjóðin eigi þetta skilið þar sem hún hafi lifað um efni fram undanfarin 15 ár á kostnað lána frá útlendingum. Þess vegna skuli greiða útlendum spákaupmönnum okurvexti sem sárabót að veðmálið þeirra heppnaðist ekki - en á kostnað Íslands!!

Markmið seðlabankans er 2,5% verðbólga. Á fundinum kom fram að verðbólguvæntingar eftir 12 mánuði eru ca. 0%. Það var staðfest að krónan hefur veikst vegna vaxtagreiðslna sem er afleiðing þess að útlendingar taka vexti frá Íslandi í formi gjaldeyris. Því var lýst yfir á fundinum að forsendur í raun-hagkerfinu réttlættu hressilega vaxtalækkun og að útlitið á alþjóðamarkaði væri nú mun dekkra en áður var reiknað með.

Bíðið við - hvað kemur þá í veg fyrir hressilega vaxtalækkun!? Seðlabankastjórinn svaraði þessu í raun með "service the debt ". Borga háa vexti til útlendra spákaupmanna?! Ég spyr: Fyrir hvern vinnur sá norski og þá einnig hans samverkamenn? Er verið að gæta hagsmuna Íslands eða erlendra spákaupmanna?