Wednesday, April 8, 2009

Heimsmet í vöxtum í frosnu hagkerfi?!

Sem fyrr veldur seðlabankinn vonbrigðum. Arnór, Þórarinn og maðurinn með skrítna tungumálið telja 15,5% stýrivexti gagnast þjóðinni best í dag. Ótrúlegt. Ég lagði það samt á mig að hlusta á rökstuðning þeirra fyrir heimsmeti í vöxtum. Margt mótsagnakennt kom þar fram og væri gott efni í námskeið í rökfræði um rökleysu og ótrúverðugan málflutning.

Eitt dæmi er málflutningur aðstoðarseðlabankastjóra sem sagði m.a.:

  1. Ef litið er á raunhagkerfið þá er innistæða fyrir umtalsverðri vaxtalækkun.
  2. Ekki lækkað hraðar því hætta er að það veiki gengið.
  3. Lækkun gengis undanfarið ekki vegna vaxtalækkunar.
  4. Lækkun gengis vegna vaxtagreiðslna til útlendinga.
  5. The missing link: Upphæð vaxtagreiðslna er háð stýrivöxtum. Arnór hélt áfram:
  6. Veit ekki upphæð sem stýrivextir hafa áhrif á og má umbreyta í gjaldeyri.
  7. Sterkara gengi er forsenda vaxtalækkunar.

Samntekið sagði Arnór því: Raunhagkerfið segir að við eigum að lækka vexti umtalsvert - og við sjáum að hærri vaxtagreiðslur veikja gengið - hins vegar getum við ekki lækkað vexti hraðar því þá veikist gengið!!

Niðurstaða Arnórs er því samkvæmt þessu: Háir vextir veikja og styrkja gengið!?!

Ég spyr: Hversu lengi þarf maður að umbera svona vitleysu? Dugar ekki að þessir aðilar hafa tryggt óstöðugleika krónunnar með stefnu sinni og valdið hruni krónunnar í tvígang síðustu 12 árin. Á að leyfa þeim að leggja Ísland endanlega í rúst?