Thursday, April 16, 2009

Besta ráðið gegn atvinnuleysi

Stjórnmálamenn keppast nú að svara því hvernig skapa á ný störf. Það kemur á óvart hversu fáir benda á skilvirkustu leiðina - þ.e. að lækka vexti.

Fjárfestum á Íslandi býðst nú að geyma fjármuni sína í formi ríkistryggðra innstæðna sem taka mið af stýrivöxtum seðlabankans (15,5%). Þegar þannig árar er lítil ástæða að hætta fjármunum sínum til atvinnusköpunar. Hins vegar, ef þessi okurvaxtastefna seðlabankans væri ekki til staðar, þá væru fjárfestar líklegir til að leita annarra valkosta. Þannig myndi aukið fjármagn leita út í atvinnulífið, treysta rekstur góðra fyrirtækja og nýtast til atvinnusköpunar.

Áhrifin eru þannig m.a. minna atvinnuleysi, aukin fjárfesting í atvinnulífinu, fækkun gjaldþrota sem aftur minnkar kostnað ríkisins vegna atvinnuleyisbóta, tapaðra skatttekna, minnkandi umsvifa o.þ.h. Myndin að ofan sýnir vaxtastig og atvinnuleysi í BNA þar sem síðari breytan er tafin um tvö ár. Hér er ekki um að ræða formlega greiningu en myndin gefur vísbendingu um að lægri vextir stuðli að auknu atvinnustigi á næstu árum.