Thursday, March 19, 2009

Rökleysa Seðlabankans

Í dag ákvað seðlabankinn að lækka stýrivexti úr 18% niður í 17%. Þetta er ótrúlega veiklulegt. Það er sérstakt að hægt sé að bjóða jákvæða raunvexti þegar raunhagkerfið er að dragast þetta mikið saman. Hvernig má það vera að sú þjóð sem varð hvað verst úti í kreppunni er ekki bara með jákvæða raunvexti heldur líklega þá hæstu?

Í rökstuðningi bankans kemur fram að taka þarf tillit til þess að gjaldeyrishöftum verður einhvern tímann aflétt. Mikilvægt sé að hafa nægjanlega áhættuleiðrétta ávöxtun innlendrar fjáreignar. Fulltrúi Seðlabankans bætti síðan við í kynningu sinni að skuldatryggingarálagið (CDS) á íslenska ríkið endurspeglaði þetta. Réttlætir Seðlabankinn háa vexti með háu CDS álagi?!!

CDS álag endurspeglar líkur á gjaldþroti/greiðslufalli. Eftir því sem meiri líkur eru taldar á greiðslufalli þá hækkar álagið. Lægri vextir auka líkur á hagfelldri niðurstöðu fyrir íslenskt efnahagslíf og þá er að sama skapi líklegra að íslenska ríkið geti staðið við sitt. Ef auknar líkur eru á að ríkið standi við sitt þá lækkar CDS álagið. Að sama skapi eykst CDS álagið við háa vexti enda meiri líkur á greiðslufalli hjá íslenska ríkinu.

Samkvæmt rökum bankans þá þurfa vextir að vera háir m.a. þar sem CDS er hátt. Háir vextir auka síðan líkur á greiðslufalli og því mun CDS væntanlega hækka. Þá þyrfti Seðlabankinn væntanlega að hækka stýrivexti enn aftur til að þeir "endurspegli" hærra CDS álag og svo koll af kolli. Þetta er náttúrulega tóm þvæla. Það gildir líka um rök Seðlabankans fyrir því að gera svo gott sem ekki neitt.

Í lokuðu gjaldmiðlakerfi þar sem ríkir kreppa, verðbólguvæntingar litlar sem engar og hátt atvinnuleysi þá þarf að lækka vexti - það þarf ekki hagfræðing til að sjá slíkt - einungis vott af skynsemi. Ef menn hafa áhyggjur af fjármagnsflótta og veikingu krónunnar við lægra vaxtastig (note bene í lokuðu kerfi!) þá ættu menn að hafa meiri áhyggjur af því að þá fyrst flýja menn með krónurnar sínar ef þeir hafa ekki trú á íslensku efnahagslífi. Hvort það eru 17% eða 50% skuldabréfavextir þegar útgefandinn getur ekki greitt - skiptir ekki máli. Í báðum tilvikum eru peningarnir tapaðir og þú segir einfaldlega - nei tak ut vil ek!

Íslensk króna þarf að endurspegla íslenska raunhagkerfið. Hún verður ekki sterkari við hærri vexti - hún veikist í takt við hækkandi CDS álag, verri stöðu heimilanna og veikingu efnahagslífsins. Með þessu útspili í dag er verið að endurvekja gömlu peningamálastefnuna sem sigldi krónunni í strand 2001 og 2008. Hafa menn virkilega ekkert lært - spyr sá sem ekki veit.