Tuesday, March 24, 2009

Nýja Kreppumeðalið: 24% raunstýrivextir

Verðbólga lækkar nú -0,59% milli mánaða sem samsvarar 7% verðhjöðnun á ársgrunni. Við erum því með 24% raunstýrivexti! Telur seðlabankinn að landið sem fór hvað verst út úr kreppunni þurfi hávaxtastefnu til að vinna sig út úr henni? Hvaða vitleysa er þetta!

Allt í máli seðlabankans á síðasta vaxtaákvörðunardegi mælti með hressilegri vaxtalækkun. Rök gegn lækkun voru áhyggjur að lægri vextir veiki krónuna. Ekki viljum við það.

En málið er hins vegar að nú um mundir veikja háir vextir krónuna EN styrkja hana ekki. Hér er ástæðan:


  1. Háir vextir veikja raunhagkerfið og það þegar það þarf síst á því að halda. Hærri vextir veikja þannig vonir um að efnahagslífið styrkist sem veldur því að væntingar minnka og trú á gjaldmiðlinum minnkar. Því minni trú á gjaldmiðlinum því fleiri yfirgefa hann. Útstreymi eykst og krónan veikist.

  2. Því hærri stýrivextir - því meiri vextir og vöxtum má skipta í gjaldeyri samkvæmt haftareglunum. Því hærri vextir eru því ávísun á meira gjaldeyrisútstreymi og þannig veikist krónan.

Ef íslenskt hagkerfi gengur vel þá ætti krónan að styrkjast og öfugt - ekkert hókus pókus við það. Það lifir ekkert efnahagslíf af 24% raunstýrivexti. Punktur.

Segjum sem svo að 500 milljarðar séu í eigu útlendinga inni í kerfinu og að þeir beri 17% vexti. Það samsvarar 84 milljörðum í vexti á ári eða nettó útflutningsverðmæti 442 þúsund tonna af þorski. Til að mæta slíku árs gjaldeyrisútflæði sem er bein afleiðing af hávaxtastefnu seðlabankans þá þarf nettó innflæði sem samsvarar u.þb. 4ra ára þorskveiði!