Monday, February 23, 2009

Glitnis Mótsögnin

Yfirtakan á Glitni í lok september á síðasta ári hleypti af stað atburðarrás sem varð til þess að íslensku bankarnir féllu og íslenskt efnahagslíf beið skipsbrot. Beiðnin um þrautarvaralánið er þannig upphafið að endalokum bankanna.

Beiðnin um þrautarvaralán er sérstaklega athyglisverð í ljósi uppgjörs Glitnis skömmu áður. Í uppgjöri bankans frá 30. júní er fullyrt að bankinn hafi aðgengi að 8,1 milljarði evra („Immediately available funds”) sem hægt er að grípa til fyrirvaralaust eða -lítið (bls. 23). Í kynningu Lárusar Welding (fremsta glæra) var þetta sérstaklega undirstrikað.


Hvernig má það vera að banki sem hafði fullyrt að lausafjárstaðan væri svo sterk ætti í svo miklum vandræðum með afborgun sem nemur 7% þess lausafjár sem sagt var aðgengilegt skömmu áður? Vandræðin voru svo mikil að hann þurfti að leita til Seðlabankans um þrautarvaralán? Þegar Glitnir verður uppvís að þessari mótsögn í orði og á borði þá er kannski ekki skrítið að tiltrú og traust hverfi á augabragði enda bendir þetta óneitanlega til þess að uppgjör bankans hafi í besta falli verið hæpið.