Friday, November 14, 2008

Óábyrgt að ábyrgjast Icesave

Ríkisstjórn Íslands lýsti því yfir, þega neyðarlög vegna bankanna voru sett, að innstæður Íslendinga væru tryggðar. Innistæður Breta, Hollendinga og annarra þjóða, í þessum sömu bönkum erlendis, voru ekki tryggðar.

Ein grunnregla sáttmála ESB bannar mismunun á grundvelli þjóðernis. Í þessu ljósi er skiljanlegt að ESB og Bretar séu ósáttur við aðgerðir ríkisstjórnar Íslands. Íslandi þarf að vera treystandi, vera ábyrgt og virða skuldbindingar.

Bretar sköðuðu hagsmuni Íslands þegar þeir beittu hryðjuverkalögunum og lýstu Íslandi sem gjaldþrota. Skaðinn er m.a.:

1. Eignir LÍ í Bretlandi rýrnuðu.
2. Kaupþing (stærsta fyrirtæki Íslands) féll.
3. Bretar yfirtóku eignir LÍ ... og líka skuldir og skuldbindingar.
4. Framtíðarvirði eigna LÍ í Bretlandi nú háð Bretum.
5. Orðspor Íslands beið mikinn hnekki og lánstraust þvarr.

Beiting hryðjuverkalaga hefur þannig gjörbreytt getu Íslands til að standa við skuldbindingar. Bretar þurfa að taka ábyrgð á afleiðingum beitingu hryðjuverkalaga. Ábyrgð Íslands felst fyrst og fremst í því að taka ekki á sig skuldir sem verða til vegna óábyrgrar framkomu Breta.

Sem aldrei fyrr þarf Ísland ábyrga stjórnmálamenn sem hafa sjálfstraust og þor gegn þessum yfirgangi. Við þurfum ekki stjórnmálamenn sem blindast á báðum og kikna í hnjáliðunum í hvert sinn sem kröfur og skilyrði eru sett fram á engilsaxnesku og ESB gulrótinni er veifað.