Sunday, November 30, 2008

50% ríkislána óþörf?

Upphæðin sem íslenskir skattborgarar ábyrgjast vegna Icesave er 600 milljarðar. Það er u.þ.b. 3 X lánið sem IMF veitir Íslandi. Íslandi ber ekki lagaleg eða siðferðileg skylda að ábyrgjast þessa upphæð.

Af hverju?

 • Engin íslensk lög, eða ESB löggjöf sem við erum aðilar að, kveða á um ríkisábyrgð lágmarkstrygginga inneigna íslenskra banka, hvorki innanlands né utan.
 • Ábyrgð fjármögnunar innistæðutryggingasjóða í aðildarlöndum ESB er í fæstum tilvikum skilgreind sérstaklega.
 • Frakkar taka sérstaklega fram að lög um innistæðutryggingar eigi ekki við í tilviki kerfishruns sbr. "It is accepted that deposit guarantee schemes are neither meant nor able to deal with systemic banking crises ..." (sjá heimild að neðan).
 • Virðist almennt viðurkennt af ESB að fyrirkomulag innistæðutrygginga sé ábótavant og ekki ljóst hvað gerist ef innstæður sjóðs duga ekki til greiðslu lágmarkstrygginga.
 • Tilskipun ESB kveður á um að ríkið tekur ábyrgð á því að koma upp innistæðutryggingarsjóði sem aftur þarf að geta tryggt lágmarksinnistæður í eðlilegu árferði. Fjármögnun sjóðsins kemur oftast frá fjármálafyrirtækjum sem eru meðlimir sjóðsins. Ekki er kveðið á um að ríkið ábyrgist fjármögnun ef eignir sjóðsins duga ekki til.
 • Misjafnar skoðanir eru uppi um gagnsemi og skynsemi ríkistryggingar innistæðusjóða meðal aðildarríkja ESB.
 • Einu haldbæru rökin sem eftir standa sem mæla með því að íslenska ríkið ábyrgist Icesave eru: Illa fjármagnaður innlendur sjóður (15 milljarðar) og jafnræðisregla ESB.
 • Það má deila um upphæð í sjóði og eftirlit með honum.
 • Jafnræðisregla ESB er sérmál en hæpið að hún eigi við í því neyðarástandi sem hér skapaðist með hruni kerfisbankanna.
 • Flestar ESB þjóðir sem beittu þrýstingi að Ísland ábyrgðist fjármögnun Icesave eru ekki með slíkar kvaðir í eigin landi. Sumar þeirra þvertaka fyrir ríkisábyrgð.
 • Utanríkisráðherra réttlætti ábyrgð ríkisins þannig að annars hefði allt evrópska bankakerfið verið í hættu – er það hlutverk og hefur Ísland bolmagn að bjarga bankakerfi Evrópu þegar við lendum í kerfishruni?
 • Greinilegur galli er í regluverki ESB um tryggingar fjármálafyrirtækja. Ábyrgð á slíku geta Íslendingar ekki tekið. Það er ekki mikið jafnræði í því að Ísland skuldsetji sig til þess að bjarga trúveðruleika meingallaðs evrópsks regluverks um fjármálastofnanir – allri Evrópu til hagsbóta.
 • Það er því fráleitt að íslenska ríkið taki á sig að fjármagna skuldbindingar innistæðutryggingarsjóðs í tilviki kerfishruns.

Heimildir:
1. State aid: Overview of national rescue measures and deposit guarantee schemes, Memo/08/614, Brussels, 10th October 2008
2. Deposti Insurance, A Survey of Actual and Best Practices, IMF 1999.
3. Samskipta Seðlabanka Möltu við Evrópusambandið, 27. September 2007.
4. Frakkar takmarka ábyrgð sína í tilviki kerfishruns