Friday, October 10, 2008

Sitt er hvað evra og ESB

Á ögurstundu í íslensku efnahagslífi ákváðu stjórnvöld í Bretlandi að frysta eigur Landsbankans þar í landi. Bretar beittu fyrir sig lögum gegn hryðjuverkum. Líkur eru á að þessi aðgerð hafi átt stóran þátt í að koma stærsta banka Íslands, Kaupþingi, í þrot og auka tjón Íslands mun meira en nauðsynlegt var.

Bretar beittu ákvæðum í lögum gegn hryðjuverkastarfsemi og meðhöndla þar með Íslendinga á þeim sama grunni. Eftir þetta er erfitt að talað um Breta sem “vinaþjóð”. Í íslensku sögulegu samhengi njóta Bretar sérstöðu meðal þjóða heimsins. Bretland er eina landið sem við höfum slitið stjórnmálasambandi við í átökum. Það var í þorskastríðinu snemma árs 1976. Það er í fyrsta og eina skiptið sem eitt Nató-ríki hefur slitið stjórnmálasambandi við annað Nató-ríki.

Í stærra samhengi og í öllu fárinu um mikilvægi þess að verða hluti af ESB þá hlýtur maður að spyrja sig hvort við óskum þess að vera háð t.d. Bretum sem smáþjóð innan ESB? Er það skynsamlegt að vera háður valdboði, regluverki og duttlungum “vinaþjóða” í ESB. Þurfa Íslendingar ekki nú eins og áður fyrst og fremst á treysta á sjálfa sig, eigin úrræði og framtakssemi? Það að vera með stöðugan gjaldmiðil og öflugt efnahagslíf er mikilvægt. Það að vera háður þjóðum eins og Bretum er annað. Þessu tvennu má ekki rugla saman.

Í dag skiptir öllu máli að Íslendingar standi saman andspænis vandamálinu sem við er að etja. Nú þarf að setja niður deilur og einhenda sér í lausnir. Við erum sjálfstæð þjóð og höfum allt um það að segja hvernig við vinnum úr stöðunni og hversu hröð uppbyggingin verður. Þjóðin er rík af gæðum sem skipta máli til framtíðar og alls engin ástæða til að örvænta.

Þó svo að mikilvægt sé að eiga vinaþjóðir þá eigum við ekki að treysta á þær. Við eigum og þurfum fyrst og fremst að treysta á okkur sjálf. Það voru gerð mistök, það er liðið og gagnast ekkert að horfa til þess núna. Þjóðin þarf á öllu sínu að halda til að vinna sig sem best út úr vandamáli dagsins.

Núna er þetta undir okkur komið og hversu samheldin þessi þjóð er í erfiðleikum.