Wednesday, October 22, 2008

Lán Breta - ólán Íslands

Bretar bjóðast til að lána Íslendingum ríflega 600 milljarða til þess að hægt sé að greiða breskum sparifjáreigendum vegna eigna þeirra á IceSave reikningum Landsbankans.

Ef þetta nær fram þá þýðir það að íslensk stjórnvöld ætla að leysa IceSave svona:

  1. Ísland borgar breskum sparifjáreigendum með láni frá Bretum.
  2. Ísland selur eignir Landsbankans í Bretlandi og vonast til að komast út úr þessu skaðlaust.

Með þessu er Ísland í raun að ábyrgjast þessa 600 milljarða gagnvart innistæðueigendum í Bretlandi. Í dag er ekki krafa á ríkið vegna falls einkafyrirtækisins Landsbankans. Með láni Breta er þessu breytt og til verður krafa á ríkið. Snjallir Bretarnir!

Annað mikilvægt atriði er að þessi leið tekur í burtu hvata Breta að aðstoða við að hámarka eignir LÍ í Bretlandi eða allavega að eyðileggja ekki fyrir. Bresk stjórnvöld hafa væntanlega heilmikið með það að gera hvernig gengur að koma eignum LÍ í verð í Bretlandi (t.d. eykur það varla virði eigna Landsbankans að vera á lista ásamt Al-Qaida og auk þess mætti t.d. auka virði breskra banka í eigu LÍ, ef þarlend stjórnvöld veittu eðlilega fyrirgreiðslu frá breska seðlabankanum svo dæmi sé tekið).

Mín tillaga að lausn fyrir Bretana er þessi: Breskir sparifjáreigendur fá forgang í eignum LÍ í Bretlandi. Bresk stjórnvöld greiða sparifjáreigendum innistæður sínar. Bretar og Íslendingar leitast sameiginlega við að tryggja að hámarka verð fyrir eignir LÍ svo breskir sparifjáreigendur og breska ríkið verði ekki fyrir neinu tjóni.

Kosturinn við þessa leið er:

  1. Ísland stendur við allar sínar skuldbindingar.
  2. Ísland aðstoðar bresk stjórnvöld að draga úr skaðanum vegna falls íslensks einkafyrirtækis umfram það sem íslensk stjórnvöld þurfa í raun að gera (þrátt fyrir framkomu Breta).
  3. Bretar hafa hvata og það er pressa á Breta að tryggja hámarksverð fyrir eignir LÍ í Bretlandi.

Að samþykkja lán Breta, eins og stjórnvöld íhuga nú, er algerlega óásættanlegt þar sem:

  1. Ísland tekur á sig skuldbindingar langt umfram það sem kveðið er á um í samningum milli þjóðanna.
  2. Áhættan er að eignir LÍ í Bretlandi verði verðlitlar og það er að hluta undir Bretum komið hvernig til tekst að koma þeim í verð.
  3. Það er ekki hvati fyrir Breta að hámarka eignir LÍ

Nú gæti einhver ályktað sem svo að þetta séu einfaldlega skilyrði IMF fyrir láni og þar með láni margra annarra. Ítök Breta geri það að verkum að landið horfi fram á greiðslustöðvun nema IMF komi að málum og það sé tengt skilyrðinu. M.ö.o. að við höfum ekki bolmagn til annars en að samþykkja þetta lán.

Málið er hins vegar þetta. Við höfum ekkert bolmagn til samþykkja svona skilyrði. Lausnin er ekki að samþykkja skilyrði nú og afsaka það síðar. Við þurfum útskýra núna af hverju við höfnum algerlega þessu skilyði. Það er hluti af samningaferli sem ekki er lokið. Nú þarf að standa í fæturna.

Samningsstaða okkar er sterk hvað það varðar að við stöndum við gerða samninga. Við aðstoðum Breta að minnka skaða breskra innistæðueigenda sem treystu einkafyrirtæki á Íslandi (íslenska ríkinu ber ekki skylda til þess). Það er rausnarlegt af Íslandi. Hvað er hægt að biðja um meira? Við höfum ekki efni á meiru. Framtíðin hefur ekki efni á meiru.

Íslenskt einkafyrirtæki skuldar Bretum. Íslenska þjóðin (ríkið) skuldar Bretum ekkert. Bretar skulda hins vegar Íslensku þjóðinni ansi mikið vegna framkomu þeirra undanfarið.

Vonandi fremja stjórnarflokkarnir ekki þessi stóru afglöp. Það þarf ábyrgð og staðfestu til að stoppa þessa vitleysu.