Saturday, September 20, 2008

Bann við skortsölu .. skortur á skynsemi

Það eru undarlegir hlutir að gerast í kringum fjármálamarkaði heimsins þessa dagana. Í fyrsta lagi er gjaldþrota fyrirtækjum ekki leyft að verða gjaldþrota heldur er þeim bjargað með skattpeningum framtíðarinnar. Í öðru lagi þá er eins og það þyki óeðlilegt að leyfa verði að lækka. Skortasala er bönnuð. Í hverju felst skynsemi þessara inngripa ríkisvaldsins?

Það má segja að það sé verið að kollvarpa leikreglum markaðskerfisins í miðjum leik. Við byrjuðum í fótbolta en skiptum nú í ballett í 30 daga þar sem framherjinn á að fara í hlutverk lítillar brothættrar og tilfinninganæmnar miðaldra ekkju. Og hvað næst - ruðningsbolti á morgun eða kannski sund í framhaldi af dýfingum? Hvernig er best að undirbúa sig? Því miður ekki hægt þar sem við vitum ekki hvað tekur við á morgun. Góð leið til að búa til ringulreið, vantraust og gera þennan markað óstarfhæfan.

Skortsala eru ekki vandamál fjármálakreppunnar. Fyrir utan mikilvægi skortstöðu í áhættustýringu þá er skortsala m.a. aðferð til að leyfa þeim sem hafa þá skoðun að verð sé of hátt að hagnast á skoðun/greiningu sinni. Á sama hátt eru kaup aðferð til að leyfa þeim sem hafa þá skoðun að verð sé of lágt til að hagnast á skoðun/greiningu sinni. Þegar þessir tveir kraftar takast á þá myndast jafnvægi og verð á markaði. Kerfið byggir þannig á því að aðilar á markaði finni það út í viðskiptum sín á milli hvað sé eðlilegt verð? Ef það er skoðun einhvers að verð séu orðin of lág þá hlýtur sá hinn sami að meta það sem tækifæri að kaupa sem aftur dregur úr eða snýr við lækkun og þannig myndast markaðsverð að lokum.

Ef það væri rétt að banna skortsölu af því að verð séu orðin of lág – þá væri jafn eðlilegt að banna kaup þegar verð eru orðin of há? Hver á svo að dæma hvort verð séu of lág eða of há - ríkið? Ef þetta bann ætti einhvern rétt á sér þá ætti það að gilda í báðar áttir. Ef við gerum slíkt þá erum við búin að búa til fastgengi – fastgengi á verðbréf - vill það einhver?! Okkar kerfi byggir á því að “rétt verð” er það verð sem aðilar á markaði koma sér saman um.

Ein augljós skammtímaafleiðing við tímabundið bann við skortsölu er að þá mun verð jú hækka. Ástæða hækkunar er ekki betri staða fyrirtækja heldur að verkfæri þeirra sem telja verð enn of há er bannað. Ennfremur neyðast slíkir aðilar í einhverjum tilvikum til að loka sínum stöðum sem aftur veldur hækkun án innistæðu. Hvað gerist svo þegar tímabundnu banni er aflétt?

Nokkuð útbreiddur misskilningur er að það sé sérstök ástæða að banna nakta (e. naked) skortstöðu. Nakin skortstaða er skortsala sem er ekki gerð í þeim tilgangi að verja eign. Dettur einhverjum í hug að banna nakin kaup? Slíkt væri álíka gáfulegt. Nakin kaup eru kaup á verðbréfum án þess að verið sé að verja skuld. Ef þessi rök ættu að gilda þá ættu þau líka að gilda fyrir kaup. Þá væri bannað að kaupa verðbréf ef yfirvöldum þætti verðið of hátt - nema viðkomandi skuldaði bréfin fyrir! M.ö.o. þeir sem ekki skulda hlutbréf fyrir mega ekki kaupa hlutbréf af því að aðilar hafa áhyggjur af því að hlutabréfaverð hækki! Augljóslega gengur þetta ekki upp - ekkert frekar en bann við skortsölu.

Þau rök sem ég hef skilning á að valdi áhyggjum en réttlæta alls ekki bannið eru þau rök að eitthvað af lánum félaga hafa ákvæði (s.s. uppgreiðsluákvæði, skiptiákvæði, ...) sem miðast við verð bréfa á markaði. Lækkun á hlutabréfum félags á ekki að þurfa að hafa áhrif á rekstrarforsendur félags til skamms- og meðallangs tíma. Segjum svo að þetta sé útbreytt vandamál að hlutabréfamarkaður og lánaákvæði félaga séu bundin svona saman. Við slíkar aðstæður þá geta utanaðkomandi kraftar sem hafa áhrif á hlutabréfaverð vissulega keyrt félög í þrot þó svo að rekstur þeirra sé ágætur. Það gerist hins vegar bara ef stjórnendur félagsins leyfðu þessu tvennu að bindast saman með þessum hætti.

Réttlætir þetta bannið? Alls ekki. Vandamálið er þeirra sem sýndu svo litla fyrirhyggju að tengja þetta tvennt saman en ekki þeirra sem telja verð slíkra fyrirtækja ofmetið. Bannið bjargar ekki þeim sem hafa bundið saman örlög fyrirtækis síns og mögulegra skammtímasveiflna á hlutabréfaverði. Þau ákvæði eru enn til staðar. Það eina sem bjargar slíkum fyrirtækjum er að læra að halda þessu aðskildu. Sá lærdómur lærist ekki ef aldrei reynir á mistökin – slík fyrirtæki þurfa að læra af mistökum sínum og í mörgum tilvikum er eðlilegt verð fyrir slík mistök og verð lærdómsins - gjaldþrot - það eru leikreglur markaðshagkerfisins.

Niðurstaða þessa er að í dag búum við við eitthvað annað en frjálst markaðskerfi. Verð mega helst bara hækka. Áhætta má skila hagnaði til þeirra sem taka áhættuna en ef áhætta skilar tapi þá megum við allt eins búast við því að sá reikningur verði sendur inn í framtíðina fyrir aðra að greiða.

Þetta er ekki kapítalismi - þetta er klúður hræddra manna með of mikil völd og of litla skynsemi. Það er að vísu ekkert nýtt þegar kemur að ákvarðanatöku í Vesturheimi.