Sunday, August 10, 2008

Afbökuð hagfræði

Hagfræðin segir okkur að verð á hlutabréfamarkaði ráðist af framboði og eftirspurn. Það má líka orðað það þannig að verðið ráðist af tveimur kröftum; græðgi og hræðslu.

Græðgin veldur aukinni eftirspurn og hræðslan veldur auknu framboði á hlutabréfamarkaði. Grunnforsenda hagfræði og kapítalisma byggir þannig á því lögmáli að þegar þessir tveir kraftar eru í jafnvægi þá verða til viðskipti. Af því leiðir að til þess að viðskipti eigi sér staða þá þurfa báðir kraftarnir að vera til staðar.

Fjarvera annars kraftsins kemur þannig í veg fyrir jafnvægi og viðskipti. Hræðsla í fjarveru græðgi gengur ekki enda einhvers konar útgáfa af ofur varfærni, viðskiptafælni og hindrun á öll viðskipti. Á sambærilegan hátt er græðgi í fjarveru hræðslu einhvers konar útgáfa af dirfsku og framsækni, ofur dirfsku, fífldirfsku og áhættutöku umfram skynsamleg mörk sem hræðslan setur. Viðskipti þar sem annar krafturinn fær að virka en hinn ekki er þannig ekki kapítalismi heldur einhver annar ismi.

Ýmsir ofur-kaupréttarsamningar stjórnenda fyrirtækja á Íslandi undanfarin ár eru dæmi um þetta. Annar krafturinn (græðgin) var of-virkjaður en hinn (hræðslan) jafnvel tekin úr sambandi. Slíkir kaupréttir þýddu að stjórnendur græddu stórt ef verð hækkaði en töpuðu ekki þó svo að verð lækkaði.

Stjórnendur með slíka samninga höfðu því einungis ástæðu til að vera djarfir og því djarfari því betra. Ef framsæknin, dirfskan og þess vegna fífldirfskan gekk upp þá gat stjórnandinn grætt óhóflega og ef ekki þá hélt hann bara laununum eða fékk jafnvel feitan starfslokasamning. Þar sem hræðslu krafturinn hefur verið aftengdur og græðgin of-virkjuð þá er hættan sú að útkoman verði ekki endilega skynsamleg enda byggir hún ekki á því að ná jafnvægi milli græðgi og hræðslu.

Annað nýlegt dæmi um þetta er þegar Fannie Mae og Freddie Mac sjóðunum var nýlega bjargað af bandaríska ríkinu. Sjóðirnir eru í eigu hluthafa sem njóta þess ef vel gengur en samkvæmt nýjasta útspili stjórnvalda í Washington er þeim bjargað af skattborgurunum þegar illa gengur. Þannig verður til einhver afbökuð útgáfa af hagfræði þar sem grunnlögmáli kapítalismans um jafnvægi milli kraftanna tveggja hefur verið kippt úr sambandi.

Þessi tvö dæmi eru sambærileg hvað það varðar að í báðum tilvikum er hræðslukrafturinn aftengdur en græðgin fær að halda sér. Munurinn er hins vegar sá að ef illa fer hjá fyrirtækjunum, þá blæða almennir hluthafar þeirra, en hjá sjóðunum þá eru það framtíðar skattborgarar í Bandaríkjunum.

Látum það vera að misskilin hagfræði þrífist á Íslandi en svo bregðast krosstré sem önnur tré þegar bandaríska ríkið misstígur sig og flaggar fölsku flaggi kapitalisma í krafti almannahagsmuna. Fyrst að skattgreiðendur þurfa í raun að taka áhættuna af sjóðunum en hluthafar að njóta þess ef vel gengur þá væri eðlilegra að þjóðnýta sjóðina. Það var ekki gert.

Getur verið að stjórnendur sjóðanna hafa áttað sig á því fyrir löngu að þeim yrði bjargað ef illa færi? Ef svo er þá hefði græðgi-krafturinn verið virkjaður fyrir löngu í fjarveru hræðslu. Slíkt er jú ávísun á fífldirfsku. Þá væri allavega kominn skynsamleg skýring á glórulausar lánveitingar undirmálslána í Bandaríkjunum en sjóðirnir voru jú drifkraftur þeirra lána. Kannski ótrúlegt - en raunveruleikinn eru jú oft lygilegri en svæsnustu lygasögur.

Hremmingar í fjármálakerfum heimsins undanfarið sýna að tölvuvert hefur skort á hræðslukraftinn undafarin ár. Í dag er það eflaust freistandi fyrir stjórnmálamenn að reyna að afla sér fylgis með því að leggja til að birtingarmyndum hræðslunnar sé sópað undir teppið. Leggja til að bjarga fyrirtækjum, sjóðum og mönnum frá gjaldþrotum, halda uppi fasteignverði til að koma í veg fyrir eignatap og opinberar lántökur til að halda uppi gengi gjaldmiðla. Þetta er hins vegar varhugavert. Í fyrsta lagi þá virkar hagfræðin ekki ef einungis annar krafturinn fær að blómstra. Í öðru lagi skekkir það gildismat og býr til ójafnvægi í átt til fífldirfsku og græðgi ef hræðslan er útlokuð með þessum hætti. Í þriðja lagi er verið að senda reikninga inn í framtíðina fyrir börn okkar og barnabörn að greiða og það fyrir mistök, neyslu og eyðslu okkar undanfarin misseri.

Gjaldþrot, verðlækkanir, eignatöp og gengisfelling eru allt birtingarmyndir hræðslukraftsins sem lögmál kapítalismans byggir á. Hræðslan er ekki síst mikilvægari kraftur en græðgin til þess að kapitalisminn virki. Hræðslan setur mörk og er líkleg til að tryggja skynsemi og hóf í viðskiptum.


Alveg eins og að frelsi þarf að fylgja ábyrgð þá þarf hræðsla að fylgja græðgi.