Wednesday, June 11, 2008

Vísindi hagfræðinnar

Í nýrri bók George Soros, The New Paradigm For Financial Markets, vitnar hann mikið til Karl R. Popper sem er hvað þekktastur sem óvæginn gagnrýnandi kenninga sem þykjast hafa höndlað “stórasannleik”. George Soros er meðal farsælustu fjárfesta samtímans og ætti því að skilja samhengi hlutanna á fjármálamarkaði. Í bókinn er bent á ýmsar forsendur í hagfræði sem standast ekki þegar betur er að gáð.


Í grófum dráttum undirstrikar Soros í bók sinni þá staðreynd að hagfræði tilheyrir félagsvísindum. Að hans mati er það engu að síður tilhneiging hagfræðinga að meðhöndla hagfræði sem raunvísindi í þeirri von að hægt sé að setja fram algildar kenningar, nokkurs konar “stórasannleik”. Þannig er hætta á að til verði hagfræði byggð á kenningum sem líkjast helst óskeikulum eðlisfræðilögmálum en er í raun og veru kenningar sem byggja oft á veikum og síbreytilegum forsendum. Að mati Soros og raunar Popper þá verða til falsvísindi þegar hug- og félagsvísindi eru klædd í búning raunvísinda.

Óneytanlega kom mér þessi boðskapur í hug þegar ég las nýlegt erindi aðalhagfræðings Seðlabanka Íslands. Þó svo að hagfræðingurinn fari ágætlega yfir sviðið þá er á stundum engu líkara en að hann telji hagfræði til raunvísinda. Stefna Seðlabanka Íslands, og þá væntanlega uppskrift aðalhagfræðingsins, hefur mistekist. Ýmsir hafa bent á annmarka stefnu Seðlabankans og gagnrýnt á málefnalegan hátt. Það er því sérstakt að lesa “mótrök” aðalhagfræðingsins að gagnrýnendur séu annað hvort á mála hjá hagsmunasamtökum eða að þeir séu ekki hagfræðimenntaðir.

Gagnrýnin stendur, en svör aðalhagfræðingsins eru engin mótrök. Þekkt aðferð þeirra sem hafa ekki mótrök er að reyna að gera lítið úr mótaðilum og/eða snúa út úr. Soros lagði áherslu á að skilja annmarka þekkingar okkar á hug- og félagsvísindum sem móta fjármálamarkað og að menn falli ekki í þá gryfju að líta á hagfræði sem raunvísindi. Spurningin er hvort aðalhagfræðingurinn ætti ekki leggja við hlustir þegar Soros talar. Soros hefur allavega náð árangri með sinni nálgun en hagfræðingurinn ekki.