Wednesday, June 4, 2008

Flotkrónu með hjálparkút kippt á grynningar

Í lok dags í dag tilkynnti Seðlabanki Íslands um nýjar reglur um gjaldeyrisjöfnuð fjármálastofnana. Breytingin felur í sér að fjármálastofnunum er heimilt að vera með 10% skekkju í gjaldeyri, sem hlutfall af eigin fé, í stað 30% sem áður var. Nýjar reglur taka gildi 1. júlí n.k. Með þessu neyðast fjármálastofnanir, sem hafa nýtt 30% svigrúmið og veðjað á veikingu krónunnar, til að selja gjaldeyri.

Með auknu framboði af gjaldeyri er Seðlabankinn því að reyna að styrkja krónuna. Hins vegar þrengja nýjar reglur svigrúm markaðsvaka á gjaldeyrismarkaði til að bregðast við ójöfnu inn- og útstreymi sem aftur mun hafa í för með sér meiri sveiflur.

Fram til 1. júlí, á meðan markaðsaðilar aðlaga sig að nýjum reglum, er líklegt að gengi krónunnar ráðist mikið af breyttum leikreglum. Það er m.ö.o. búið að breyta reglunum til að milda og/eða eyða áhrifum markaðarins á þessu tímabili. Það er allavega tilgangurinn að mínu viti. Það að skipta um reglur í miðjum leik þegar illa gengur getur gengið til skamms tíma en er augljóslega ekki trúverðug stefna til lengri tíma.

Af hverju er Seðlabankanum svona mikið í mun að styrkja gengið? Veikt gengi dregur úr halla á viðskiptum við útlönd, styður við útflutningsgreinar, hraðar nauðsynlegri raunlækkun húsnæðisverðs og er leiðin til að koma jafnvægi á eftir allt of hátt skráða krónu undanfarin ár. Á móti kemur að verðbólgan verður hærri með lægra gengi. Spurningin er hins vegar hvort það er ekki verðið sem þarf að greiða fyrir misheppnaða peningamálastefnu Seðlabankans undanfarin ár.

Það sem undirstrikar ótrúverðugleika svona aðgerðar er að nýjar reglur eru kynntar með minna en mánaðar fyrirvara. Það sýndi styrk og fyrirhyggju ef svona breytingar væru tilkynntar með góðum fyrirvara en skammur fyrirvari sýnir veika stjórn, óðagot og litla fyrirhyggju. Í ljósi svona vinnubragða Seðlabankans hljóta hluthafar fjármálastofnana með höfuðstöðvar á Íslandi að spyrja sig hvort það taki því að vera háð svona hringli eða hvort lágmarksstöðugleiki í rekstri náist einungis með því að flytja starfsemi úr landi?

Ef markaðslögmál eiga bara að gilda stundum en vera í annan tíma háð handaflsaðgerðum misvitra pólitískt kjörinna Seðlabankamanna í formi kerfisbreytinga er þá hægt að tala um fljótandi krónu?

Er þetta ný peningamálastefna? Kannski fljótandi króna með pólitískan hjálparkút og bitran utanborðsmótor sem siglir henni inn á grynningar þegar reyna þarf á flotið?