Tuesday, April 29, 2008

Bangladess gegn fátækt í New York

Það var hvoru tveggja í senn kaldhæðnislegt og upplífgandi að verða vitni að því í þessum mánuði að Grameen banki hóf starfsemi sína hér í borginni. Grameen banki, banki hinna allra fátækustu í einu fátækasta landi heims Bangladess, er semsagt mættur til New York, fjármálamið-stöðvar ríkasta lands í heimi, í þeim tilgangi að berjast gegn fátækt!

Dr. Muhammad Yunus hlaut friðarverðlaun Nóbels 2006 fyrir stórmerkilegt framlag sitt í baráttu sinni gegn fátækt með smálánstarfsemi sinni (e. micro financing) undir merkjum Grameen bankans.

Þó svo að New York borg sé vissulega fjármálamiðstöð ríkasta lands heims þá verður ekki framhjá því litið að fátækt í landinu er mikil og New York þar engin undantekning. Ég þurfti að vísu að tvílesa nýlega umfjöllun í New York Times þar sem sagði frá því að um 35 milljónir Bandaríkjamanna, þar af þriðjungur börn, búa við aðstæður þar sem tekjur duga ekki fyrir mat og fá því úthlutaða matarmiða.

Þetta samsvarar því að um 30 þúsund Íslendingar fengju matarmiða vegna fátæktar. Þá er eftir annað, svosem húsaskjól, menntun og heilsugæsla hér í landi einkaframtaks og einkahagsmuna. Meðallaun í Bandaríkjunum eru vissulega há í alþjóðlegum samanburði en misskiptingin er slík að hún ber vitnisburð þess að 10% þjóðarinnar verður að stóla á matarmiða.

Það verður forvitnilegt að fylgjast með hinum framsýna friðarverðlaunahafa Nóbels, Muhammad Yunus, aðstoða hina fátæku í ríkasta landi heims byggða á lausn sem virkaði fyrir hina fátæku í einu fátækasta landi heims.